Hoppa yfir valmynd
12. mars 2009 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra biður Breiðavíkurdrengi afsökunar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra bað í dag, fyrir hönd stjórnvalda og þjóðarinnar, fyrrverandi vistmenn á Breiðavíkurheimilinu og fjölskyldur þeirra afsökunar á þeirri ómannnúðlegu meðferð sem þeir voru látnir sæta á meðan þeir dvöldust á vistheimilinu. Afsökunarbeiðnin kom fram við óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi. Forsætisráðherra bað jafnframt alla þá afsökunar sem vistaðir hafa verið sem börn á stofnunum eða heimilum fyrir tilstuðlan opinberra aðila hér á landi og sætt þar illri meðferð eða ofbeldi.

Að sögn forsætisráðherra er hins vegar ekki hægt að ætlast til þess að slík fyrirgefning sé veitt nema þessi kafli í sögu íslenskra barnaverndarmála sé gerður upp. Í tíð fyrrverandi forsætiráðherra var hafist handa um það verk. Alþingi samþykkti lög nr. 26/2007 um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Vistheimilisnefndin skilaði skýrslu um Breiðavíkurheimilið fyrir réttu ári og um önnur heimili verður fjallað í skýrslu sem væntanleg er í júní næstkomandi.

Forsætisráðherra greindi frá því við umræðurnar í dag að hún hefði nýverið falið starfsmönnum forsætisráðuneytisins að leita á ný eftir afstöðu Breiðavíkursamtakanna vegna bótagreiðslna og væru viðræður hafnar.

Síðasta ríkisstjórn lét vinna drög að frumvarpi um bætur fyrir misgjörðir gagnvart börnum sem vistuð hefðu verið á stofnunum af hálfu opinberra aðila, en fulltrúar fyrrverandi vistmanna á Breiðavík lýstu sig andsnúna þeim. Forsætisráðherra lagði áherslu á í dag að málið yrði leyst í samráði við samtökin.

Reykjavík 12. mars 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta