Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifar 20 nemendur
Í dag útskrifuðust 20 nemendur frá 14 löndum eftir sex mánaða nám við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Þetta er í ellefta sinn sem nemendur útskrifast frá Sjávarútvegsskólanum og hafa samtals 187 sérfræðingar frá 35 löndum lokið námi við skólann á þessum tíma.
Starfsemi Sjávarútvegsskólans er fjármögnuð af íslenskum stjórnvöldum og heyrir til framlaga utanríkisráðuneytisins til þróunarmála. Þátttaka Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu byggir á Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í samræmi við þau er megináhersla lögð á að uppræta fátækt, jafnrétti kynjanna, málefni kvenna og barna, heilsuvernd, menntun og sjálfbær þróun, s.s. fiski- og orkumál.
Stuðningur við Sjávarútvegsskólann er eitt af lykilverkefnum utanríkisráðuneytisins á sviði þróunarsamvinnu. Framlög til skólans hafa aukist jafnt og þétt á síðustu árum eftir því sem málefni þróunarlanda hafa fengið aukinn sess í utanríkisstefnu Íslands.
Sjávarútvegsskólinn leggur sérstaka áherslu á lönd í Afríku, sunnan Sahara, og smáeyþróunarríki. Einnig koma nemendur frá ýmsum löndum Asíu. Á hverju ári bætast ný lönd í hóp þeirra sem senda sérfræðinga í skólann og í ár eru nemendur í fyrsta sinn frá Tonga, Samoa, Liberíu, Sierra Leone og Ghana.
Til viðbótar því sex mánaða námi sem fram fer á Íslandi skipuleggur Sjávarútvegsskólinn stutt námskeið í þróunarlöndum í samvinnu við heimamenn og alþjóðlegar stofnanir. Einnig býður skólinn upp á skólastyrki fyrir nemendur sem útskrifast úr skólanum til framhaldsnáms á Íslandi. Á síðasta skólaári voru haldin sjö námskeið og nú stunda 10 fyrrum nemendur framhaldsnám á Íslandi.
Hermann Ingólfsson, sviðsstjóri þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytisins, flutti ávarp fyrir hönd utanríkisráðherra við útskriftina. Ávarpið má lesa hér.