Hoppa yfir valmynd
13. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mikilvægt skref stigið í málefnum fatlaðra

Undirskrift vegna flutnings málefna fatlaðra
Undirskrift vegna flutnings málefna fatlaðra

Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, segir stórt skref hafa verið stigið til hagsbóta fyrir fatlaða í dag þegar undirrituð var viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um flutning málaflokksins til sveitarfélaganna árið 2011. Stefnt er að því að ljúka samkomulagi um framkvæmdina á þessu ári.

Helstu markmið með flutningi þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga eru að bæta þjónustu við notendur. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verður einfaldari og skýrari og áhersla er lögð á að draga úr skörun verkefna þannig að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar þjónustu við fatlaða.

Við undirritun viljayfirlýsingarinnar sagði félags- og tryggingamálaráðherra að þetta væri langþráður áfangi. „Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þjónusta við fatlaða eigi að vera sem næst þeim sem njóta hennar og að þannig verði gæði þjónustunnar best tryggð.“ Ráðherra segir ekki síst mikilvægt „að skýra verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Óljós verkaskipting og ábyrgð hefur oft leitt til þess að fólk í þörf fyrir þjónustu hefur lent á milli kerfa og ekki fengið þá þjónustu sem því ber.“

Ásta Ragnheiður segir að síðustu misseri hafi farið fram mikið starf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins og sveitarfélaganna við undirbúning að flutningi málaflokksins. Allmörg sveitarfélög sinna nú þegar með góðum árangri umfangsmikilli þjónustu við fatlaða á grundvelli þjónustusamninga. Þeir munu halda gildi sínu þar til flutningur málaflokksins til sveitarfélaganna tekur gildi með lagasetningu eins og stefnt er að árið 2011.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni munu sveitarfélög taka að sér ábyrgð á þjónustu við fatlaða í sambýlum og á áfangastöðum fatlaðra. Þau munu sinna frekari liðveislu í þjónustu- og íbúðakjörnum og dagþjónustu við fatlaða sem ekki fellur undir vinnumál. Á ábyrgð sveitarfélaganna verða einnig heimili fyrir fötluð börn og skammtímavistun ásamt ábyrgð á stuðningsfjölskyldum fatlaðra barna.

Heildarkostnaður þjónustu við fatlaða sem ríkið sinnir nú nemur um 10 milljörðum króna á ári. Til að standa undir kostnaði vegna tilfærslunnar verða tekjur sveitarfélaganna auknar með breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Flutningur málaflokksins til sveitarfélaganna hefur áhrif á stöðu fjölda starfsmanna þar sem störf þeirra flytjast frá ríki til sveitarfélaga. Því hefur verið ákveðið að efna til formlegs samráðs við stéttarfélög um málefni þeirra.

Ásamt Ástu R. Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, undirrituðu viljayfirlýsinguna Kristján L. Möller samgönguráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar en Halldór Halldórsson formaður og Karl Björnsson framkvæmdastjóri fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta