Viljayfirlýsing um flutning þjónustu fatlaðra til sveitarfélaga undirrituð
Undirrituð var í dag viljayfirlýsing milli ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélög landsins taki við málefnum fatlaðra af ríkinu árið 2011. Heildarkostnaður þjónustu ríkisins við fatlaða nemur nú kringum 10 milljörðum króna árlega.
Samninginn undirrituðu þau Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, Kristján L. Möller samgönguráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins og þeir Halldór Halldórsson og Karl Björnsson, formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Til að standa undir kostnaði vegna tilfærslunnar verða tekjur sveitarfélaganna auknar með breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Sveitarfélögin munu bera faglega og fjárhagslega ábyrgð á þjónustunni.
Einfaldari og skýrari verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Helstu markmið með flutningi þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga eru að bæta þjónustu við notendur. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verður einfaldari og skýrari og áhersla er lögð á að draga úr skörun verkefna þannig að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar þjónustu við fatlaða. Í þessu felst einnig það markmið að efla sveitarstjórnarstigið.
Sjálfstæði sveitarfélaga
Samkvæmt viljayfirlýsingunni munu sveitarfélög hafa ríkt sjálfstæði um framkvæmd þjónustu við fatlaða. Miðað er við að í lögum verði fyrst og fremst kveðið á um skyldu þeirra til að veita viðeigandi þjónustu sem byggð er á faglegu mati á þörfum einstaklingsins.
Þjónustusvæði
Mynduð verða þjónustusvæði um rekstur þjónustunnar og er miðað við að hvert þeirra hafi að lágmarki 8.000 íbúa. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá þessu viðmiði ef sérstakar aðstæður mæla með því og viðkomandi sveitarfélög hafa sýnt fram á getu til að veita alhliða þjónustu.
Verkefni sem sveitarfélögin taka að sér
Sveitarfélög taka að sér ábyrgð á þjónustu við fatlaða í sambýlum og á áfangastöðum fatlaðra. Þau munu sinna frekari liðveislu í þjónustu og íbúðakjörnum og dagþjónustu við fatlaða sem ekki fellur undir vinnumál. Einnig verða heimili fyrir fötluð börn og skammtímavistun á ábyrgð sveitarfélaganna ásamt ábyrgð á stuðningsfjölskyldum fatlaðra barna.
Góð reynsla af þjónustusamningum við sveitarfélög um þjónustu við fatlaða
Allmörg sveitarfélög sinna nú þegar með góðum árangri umfangsmikilli þjónustu við fatlaða á grundvelli þjónustusamninga við ríkið. Þessir samningar munu halda gildi sínu þar til flutningur málaflokksins til sveitarfélaganna tekur gildi með lagasetningu eins og að er stefnt árið 2011.
Samninginn undirrituðu þau Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, Kristján L. Möller samgönguráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins og þeir Halldór Halldórsson og Karl Björnsson, formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. |