Ráðherra tók þátt í æfingu hjá Landhelgisgæslunni
Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, kynnti sér starfsemi Landhelgisgæslu Íslands í gær.
Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, kynnti sér starfsemi Landhelgisgæslu Íslands í gær. Georg Kr. Lárusson forstjóri tók á móti ráðherra og fylgdarliði ásamt þeim Ásgrími L. Ásgrímssyni, starfandi framkvæmdastjóra aðgerðasviðs, Kristjáni Þ. Jónssyni skipherra og Hrafnhildi Brynju Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa.
Heimsóknin hófst í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og kynnti ráðherra sér svo starfsemi sprengjudeildar og sjómælinga áður en farið var um borð í varðskipið Ægi. Þar var kynnt hið nýja varðskip, sem er í smíðum í Chile, áður en ráðherra, Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, Jón Magnússon skrifstofustjóri og Skúli Þór Gunnsteinsson lögfræðingur gerðust sjálfboðaliðar í æfingu sem stóð yfir með þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-EIR og Slysavarnaskóla sjómanna. Voru þau hífð um borð í þyrluna sem flutti þau á Reykjavíkurflugvöll. Þar lauk heimsókninni með kynningu á starfsemi flugdeildarinnar.