Hoppa yfir valmynd
17. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýir tímar framundan í jafnréttismálum

Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, segir ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um að hefja undirbúning að kynjaðri hagstjórn boða nýja tíma í jafnréttismálum hér á landi. Ákvörðunin skapi tímamót og sé mikið fagnaðarefni.

Fjármálaráðherra tilkynnti í dag að hann muni skipa verkefnisstjórn um stefnumótun og undirbúning að kynjaðri hagstjórn (e. gender budgeting). Í verkefnisstjórninni munu sitja fulltrúar frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu, Jafnréttisstofu og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, auk fulltrúa fjármálaráðuneytisins sem leiða mun verkefnið. Einnig er gert ráð fyrir þátttöku jafnréttisfulltrúa allra ráðuneyta í starfinu. Verkefnisstjórnin mun skila áliti og tillögum um aðgerðir til að innleiða leikreglur kynjaðrar hagstjórnar innan árs.

Ráðherra segir að þær miklu breytingar á efnahagslífinu sem nú gangi yfir með samdrætti í atvinnulífinu, atvinnuleysi, niðurskurði í opinberum rekstri og fjárhagserfiðleikum heimilanna hafi óhjákvæmilega mikil áhrif á aðstæður fólks í samfélaginu. Ljóst sé að breytingarnar hafi að einhverju leyti ólík áhrif á stöðu kvenna og karla og mikilvægt sé að taka tillit til þess við hagstjórnina. Þá sé augljóst að flókin samfélagsgerð þar sem kynin gegna að ýmsu leyti ólíkum hlutverkum, jafnt í atvinnulífinu og inni á heimilunum, valdi því að flestar ákvarðanir hins opinbera hafi á einhvern hátt mismunandi áhrif á aðstæður karla og kvenna. Kynjuð hagstjórn sé því skynsamleg og nauðsynleg.

Árið 2001 var haldin ráðstefna OECD-landanna þar sem ráðherrar þeirra skuldbundu sig til þess að innleiða svokallaða kynjaða hagstjórn fyrir árið 2015. Í þessu felst meðal annars að við gerð fjárhagsáætlana hins opinbera skuli meta hvaða kynbundin áhrif fyrirhugaðar aðgerðir kunna að hafa, hvort sem þær fela í sér útgjöld eða sparnað. Ísland er einnig eitt þeirra fjölmörgu ríkja sem hafa skuldbundið sig til þess að vinna að jafnrétti kynjanna með undirritun Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og aðild að Peking-yfirlýsingunni frá árinu 1995 þar sem kveðið er á um kynjaða hagstjórn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta