Jafnrétti í Afganistan í orði en enn ekki á borði
Alþjóðlegur dagur kvenna 8. mars var í ár haldinn hátíðlegur í borginni Maimana í Faryabhéraði í Afganistan með stuðningi íslensku friðargæslunnar en Hrafnhildur Sverrisdóttir er þróunarfulltrúi þar. Yfir 600 konur og karlar komu saman í tilefni dagsins sem haldinn var undir einkunnarorðunum "friður og réttlæti".
Fluttar voru ræður um stöðu kvenna og farið með ljóð tileinkuð konum eftir afgönsk skáld. Héraðsyfirvöld notuðu tilefnið til að veita sjö stúlkum verðlaun fyrir góða námsframistöðu en verðlaunum er ætlað að hvetja ungar stúlkur til að ganga menntavegin. Sagði fulltrúi kvennamálaráðuneytisins hátíðarhöldin vera mikilvægt tækifæri til að upplýsa konur um réttindi sín.
Í tilefndi dagsins kusu margar afganskar konur að mæta til hátíðarhalda með bláa höfuðslæður til að minna á búrkurnar sem þær urðu að klæðast fyrir fall Talíbana. Kusu konurnar þennan lit til að leggja áherslu á framtíð þar sem framlag afganskra kvenna til samfélagsins er að fullu virt.
Á því er hins vegar mikill misbrestur, samkvæmt tölum Kvennaþróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna, UNIFEM, er talið að yfir 87% afganskra kvenna búi í dag við heimilisofbeldi. "Miklum árangri hefur verið náð í orði, t.d. er jafnrétti karla og kvenna ritað í afgönsku stjórnarskránna en raunveruleikinn er ekki sá sami," segir Wenny Kusuma,yfirmaður UNIFEM í Afganistan. Auk framlags íslenska þróunarfulltrúans styðja íslensk stjórnvöld starf UNIFEM í Afganistan.