Hoppa yfir valmynd
20. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Launatekjur eftir aldri

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 19. mars 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Sá áhrifaþáttur sem best skýrir mismunandi launatekjur fólks er aldur. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður.

Íslendingar byrja snemma að taka þátt í atvinnulífinu, með sumarvinnu eða hlutastörfum með skóla. Þegar fólk kemur úr námi byrjar það gjarnan neðarlega í launatöflum en færist upp með starfsreynslu og -aldri.

Kjarasamningar eru oft með innbyggðar hækkanir eftir starfsaldri en fleira kemur til. Þannig er vinnutími gjarnan misjafn eftir aldri og sumir vinna á fleiri en einum stað.

Yngra fólk hefur oft vaxandi fjárþörf þegar stofnað er til fjölskyldu, heimilisrekstrar, barnauppeldis, íbúðakaupa o.þ.h. Á ákveðnu aldursskeiði ná meðaltekjur aldurshópa hámarki og fara lækkandi eftir það. Skýringin er líklega sú að fólk lætur sér í auknum mæli nægja að sinna einu starfi og dregur úr vinnutíma.

Meðaltekjur eftir aldri árið 2007

Á myndinni má sjá að árið 2007 voru launatekjur að meðaltali hæstar hjá fólki sem var um fertugt og byrjuðu að lækka á fimmtugsaldri. Í hinni miklu uppsveiflu sem ríkti undanfarin ár hækkuðu laun yngri hópa mjög mikið og var hlutfallsleg hækkun meðaltekna mest á yngri aldursskeiðum.

Árið 2007 hækkuðu meðallaunatekjur fólks sem fætt var árið 1980 um 20% á meðan launatekjur allra framteljenda hækkuðu um 8,5%. Þótt krónutöluhækkun aldurshópa fram að fertugu sé áþekk eru grunntekjur hinna yngri lægri. Hlutfallsleg aukning milli ára segir því ekki alla söguna.

Nú hafa orðið mikil straumhvörf á vinnumarkaði. Margir hafa misst vinnu og erfiðara er fyrir yngra fólk að koma inn á vinnumarkaðinn en áður, sem getur haft áhrif á sambandið milli tekjubreytinga og aldurs. Hlutfallslega fleira ungt fólk hefur misst vinnuna en eldri þátttakendur á vinnumarkaði.

Reynsla annarra þjóða er að þegar atvinnuleysi eykst og ungt fólk á erfiðara með að fá vinnu þegar það er tilbúið til að koma inn á vinnumarkaðinn, t.d. eftir nám, er hætta á að það missi af lestinni þannig að þegar uppsveiflan hefst að nýju sé framboð af yngra fólki með nýrri menntun tilbúið að taka að sér þau störf sem í boði eru. Þannig hafa orðið til „týndar kynslóðir”.

Þeir sem ekki fá vinnu fljótlega eftir að þeir útskrifast ættu eftir því sem kostur er að halda áfram námi til að tryggja að þeir búi yfir nýjustu þekkingu þegar hjólin fara að snúast hraðar á nýjan leik.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta