Rekstraráætlanir og starfsmannamál í kastljósinu á fundi með forstöðumönnum
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið bauð forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins til árlegs fundar fimmtudaginn 19. mars á Radisson SAS Hótel Sögu. Í deiglunni voru rekstur og starfsmannamál á erfiðum tímum í efnahagsmálum. Tæplega 70 manns sóttu fundinn; forsvarsmenn stofnana og starfsfólk ráðuneytisins, en þetta er í fimmta sinn sem slíkur fundur er haldinn með undirstofnunum ráðuneytisins.
Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra flutti ræðu þar sem hún sagði frá þeim málum sem eru í deiglunni í ráðuneytinu, kynnti þau frumvörp sem hún hefur flutt á Alþingi frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum og sagði frá öðrum aðkallandi verkefnum sem unnið er að. Hún kynnti m.a. hvernig dóms- og kirkjumálaráðuneytið hyggst vinna að undirbúningi fjárlagagerðar fyrir næsta ár, en til stendur að setja á fót vinnuhópa til að fara yfir og greina alla þá möguleika sem til greina koma varðandi rekstrarumhverfi, stofnanaumhverfi og fyrirkomulag verkefna í viðkomandi stofnun eða málaflokki.
Þá flutti Jón Magnússon, skrifstofustjóri rekstrar- og fjármálaskrifstofu, erindi sem hann kallaði Framkvæmd fjárlaga og fjárhagshorfur næstu ára. Kristín Völundardóttir, sýslumaður á Ísafirði, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sögðu frá rekstri og áætlanagerð hjá embættum sínum og fjölluðu um reynslu og verklag á hvorum stað.
Leifur Eysteinsson, sérfræðingur hjá menntamálaráðuneyti, flutti síðan erindi um sameiningu ríkisstofnana og Ásta Lára Leósdóttir, sérfræðingur hjá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, fjallaði um starfsmannamál á krepputímum. Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri stýrði fundi.
Sjá svipmyndir frá fundinum hér.