Hoppa yfir valmynd
21. mars 2009 Matvælaráðuneytið

Endurskipulagning sparisjóðakerfisins í landinu

Stjórnvöld á Íslandi hafa í dag ákveðið að grípa til samhæfðra aðgerða til að verja hagsmuni viðskiptavina sparisjóðanna og tryggja bankaþjónustu um land allt. Með þessum aðgerðum hefur styrkum stoðum verið skotið undir áframhaldandi starfsemi sparisjóða. Þeim verður þar með gert kleift að taka virkan þátt í endurreisn hagkerfisins. Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi eru tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.

Fjármálaeftirlitið hefur í dag gripið inn í rekstur SPRON og Sparisjóðabankans á grundvelli laga nr. 125/2008, vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Eftir þær aðstæður sem sköpuðust á fjármálamarkaði í október 2008 hafa þessi tvö fjármálafyrirtæki starfað á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu varðandi eiginfjárstöðu og Seðlabanki Íslands hefur veitt þeim lausafjárstuðning. Lausafjárfyrirgreiðsla hefur verið veitt með tveimur skilyrðum. Hið fyrra var að samkomulag næðist við lánardrottna sem myndi leysa eiginfjárvanda fyrirtækjanna að því tilskildu að þau fengju eiginfjárframlag frá ríkissjóði. Hið síðara var að fyrirtækin legðu fram fullnægjandi veð, þannig að áhætta ríkissjóðs vegna lausafjárfyrirgreiðslu yrði takmörkuð. Fyrirtækin hafa átt í viðræðum við lánardrottna um hugsanlega endurfjármögnun skulda. Lausafjárstaða fyrirtækjanna hefur haldið áfram að versna og því voru ofangreindar ákvarðanirr óhjákvæmilegar.

Gripið hefur verið til aðgerða til þess að treysta rekstur eftirfarandi sparisjóða samkvæmt lýsingu hér fyrir neðan. Þeir eru BYR, Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Keflavíkur, Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Strandamanna, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Þórshafnar. Með viðeigandi ráðstöfunum telja stjórnvöld að áframhaldandi rekstur þessara sparisjóða verði tryggður.

SPRON og viðskiptavinir

Viðskiptavinir SPRON fá sjálfkrafa aðgang að innstæðum sínum og njóta annarrar bankaþjónustu hjá Nýja Kaupþingi. Sama gildir um viðskiptavini Netbankans. Viðskiptavinir SPRON geta nálgast upplýsingar á vefsíðum og í útibúum fyrirtækjanna, þar sem starfsfólk veitir viðskiptavinum nánari leiðbeiningar.

Sparisjóðabankinn og viðskiptavinir

Greiðslumiðlun Sparisjóðabankans færist yfir til Seðlabanka Íslands.

Starfsfólk

Fundað verður með starfsfólki viðkomandi sparisjóða við fyrsta tækifæri og nánari upplýsingar og aðstoð veitt.

Aðgerðir til stuðnings sparisjóðum

Við setningu laga nr. 125/2008 vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði var ríkissjóði veitt heimild til að leggja sparisjóðum til fjárhæð sem nemur allt að 20% af eigin fé hvers þeirra. Á síðasta ári voru settar reglur um það með hvaða hætti sparisjóðirnir sæktu um framlag frá ríkissjóði á grundvelli heimildarinnar. Jafnframt voru sett skilyrði fyrir eiginfjárframlagi ríkissjóðs. Fjármálaráðuneytinu hafa þegar borist umsóknir frá sex sparisjóðum um eiginfjárframlag og er stefnt að því að hraða afgreiðslu umsókna.

Fjárhagsleg endurskipulagning og áhrif á ríkisfjármál

Með þessum aðgerðum telja stjórnvöld að styrkari stoðum hafi verið skotið undir bankakerfið og að kostnaður ríkissjóðs verði vel innan settra marka í fjárlögum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta