Ríkisframlag til sparisjóða
Fréttatilkynning nr. 19/2009
Yfirlýsing fjármálaráðherra
Í samræmi við reglur sem gefnar voru út 18. desember s.l. um framlag ríkissjóðs til sparisjóða hefur fjármálaráðuneytið þegar móttekið umsóknir frá Sparisjóði Norðfjarðar, Sparisjóði Keflavíkur, Sparisjóði Vestmannaeyja, Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Bolungarvíkur og Byr sparisjóði.
Reglurnar kveða á um að umsóknir fari til umsagnar hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Stefnt er að því að hraða afgreiðslu umsókna og verður eftirfarandi haft að leiðarljósi:
- Að tryggðir verði sem fjölbreyttastir valkostir neytenda í fjármálaþjónustu
- Að fjármálaþjónusta verði í boði um land allt
- Að hagræðingu verði náð fram í rekstri sparisjóðanna
- Að samfélagslegt hlutverk sparisjóðanna verði tryggt
Nú þegar stefnir í að starfsemi SPRON og Sparisjóðabankans flytjist til annarra fjármálastofnana má gera ráð fyrir því að erfiðleikum á íslenskum fjármálamarkaði sé að ljúka.
Þegar lokið verður úrvinnslu umsókna frá sparisjóðunum og afgreiðslu lána ríkissjóðs til annarra fjármálafyrirtækja í tengslum við endurhverf viðskipti er það sannfæring ríkisstjórnarinnar að ekki komi til frekari lokana íslenskra innlánsstofnana.