Greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 19. mars 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Þann 18. mars varð að lögum frá Alþingi frumvarp fjármálaráðherra sem kveður á um tímabundna greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið.
Með lögum þessum eru gerðar tímabundnar breytingar á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt til að koma til móts við erfiðleika fyrirtækja í landinu við að standa skil á aðflutningsgjöldum og vörugjöldum á hefðbundnum gjalddögum.
Samkvæmt lögunum er gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalda vegna uppgjörstímabila á árinu 2009 dreift á lengri tímabil. Gildistaka laganna er frá 15. mars til þess að ná yfir hefðbundinn gjalddaga aðflutningsgjalda, vegna tímabilsins janúar til febrúar 2009, sem var 15. mars. Þeim gjalddaga, 15. mars, er þá samkvæmt lögunum dreift á þann hátt að 1/3 af aðflutningsgjöldum vegna tímabilsins ber að skila 15. mars, 1/3 15. apríl og 1/3 5. maí. Næsti hefðbundinn gjalddagi aðflutningsgjalda er síðan 15. maí, fyrir tímabilið mars til apríl, og er honum að sama skapi skipt í þrennt (15. maí, 15. júní og 5. júlí) o.s.frv.
Um nokkurs konar greiðslufrest þessara gjalda er því að ræða en samkvæmt lögunum ber ekki að reikna vexti á meðan á hinum tímabundna greiðslufresti stendur. Að auki er kveðið á um í lögunum að þetta tímabundna fyrirkomulag hafi ekki áhrif á rétt fyrirtækja til innskatts á viðkomandi uppgjörstímabilum.
Þess má geta að greiðsludreifing aðflutningsgjalda af samskonar meiði var lögfest 17. nóvember 2008 en náði þá eingöngu yfir uppgjörstímabilið september til október 2008 og var með vaxtareikningi. Með hinum nýsamþykktu lögum er því gengið lengra þar sem greiðsludreifingin nær út árið 2009 og að auki er fallið frá vaxtaútreikningi á meðan að á greiðslufresti stendur.
Eins og fram kemur í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar með frumvarpi því sem varð að hinum nýsamþykktu lögum er þessi greiðsluaðlögun í samræmi við tillögur Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu og ætla má að lögin verði til hagsbóta fyrir atvinnurekstur í landinu og auðveldi fyrirtækjum innflutning á vöru.