Ábendingar um jafnréttismál
Jafnréttisvaktin hefur opnað vefsvæði á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins www.felagsmalaraduneyti.is/jafnrettisvaktin þar sem meðal annars er hægt að senda henni ábendingar um málefni sem varða jafnrétti kynjanna og ætla má að þarfnist sérstakrar skoðunar.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, skipaði jafnréttisvaktina í febrúar síðastliðnum. Hlutverk hennar er að safna upplýsingum um áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um jafnréttismál til að tryggja að við endurreisn íslensks efnahagslífs og uppbyggingu faglegra stjórnunarhátta verði jafnrétti kynjanna haft að leiðarljósi.
Á vefsvæði jafnréttisvaktarinnar eru upplýsingar um verkefni nefndarinnar, ásamt skýrslum, greinum og tölfræði sem varðar jafnréttismál og stöðu kynjanna.
Jafnréttisvaktin óskar eftir ábendingum frá einstaklingum, félögum og stofnunum sem geta nýst í greiningu á áhrifum efnahagsástandsins á stöðu karla og kvenna. Þá eru allar ábendingar sem lúta að jákvæðum og uppbyggilegum leiðum til að úrbóta fyrir jafnrétti kynjanna vel þegnar. Þess ber þó að geta að jafnréttisvaktin tekur ekki til afgreiðslu málefni er varða einstaklinga.
Formaður jafnréttisvaktarinnar er Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir.