Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 19. mars 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Nokkur umræða er um þessar mundir um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna og verður hér aðeins farið yfir þær.
Í 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er kveðið á um hvernig lífeyrissjóðum er heimilt að ávaxta fé sitt og hvaða takmarkanir eru á þeim heimildum en þær hafa þann tilgang að tryggja áhættudreifingu. Helstu takmarkanir eru þær að hlutdeild hlutabréfa má að hámarki vera 60% af hreinni eign sjóðsins. Gjaldeyrisáhætta má að hámarki vera 50%. Samanlögð eign sjóðs í verðbréfum útgefnum af sama aðila, tengdum aðilum eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skal ekki vera meira en 10% af hreinni eign sjóðsins (t.d. hlutabréf og skuldabréf sama hlutafélags).
Þá er lífeyrissjóði eða einstakri deild hans ekki heimilt að hafa meira en 25% af hreinni eign sinni í verðbréfasjóðum innan sama rekstrarfélags. Með lögum nr. 171/2008 sem tóku gildi 31. desember sl. var gerð sú breyting á 36. gr. laga nr. 129/1997 að heimild lífeyrissjóða til fjárfestingar í óskráðum bréfum var hækkuð úr 10% í 20%. Var það gert í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast höfðu á fjármálamarkaðnum en hlutföll í eignasöfnum lífeyrissjóðanna höfðu riðlast verulega þannig að hlutfall óskráðra bréfa hafði vaxið hjá mörgum sjóðanna eingöngu vegna þessa ástands á fjármálamarkaði. Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu þá má búast við að þetta hlutfall verði endurskoðað þegar betra jafnvægi kemst á fjármálamarkaðinn. Aðrar breytingar sem urðu á 36. gr. laga nr. 129/1997 með lögum nr. 171/2008 voru hins vegar til þrengingar á fjárfestingarheimildum sjóðanna.
Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi er séreignarlífeyrissparnaður í vörslu lífeyrissjóða háður sömu takmörkunum varðandi fjárfestingarstefnu og samtryggingarlífeyrissjóðirnir þ.e. falla undir 36. gr. laga nr. 129/1997.
Séreignarlífeyrissparnaður sem er í vörslu annarra aðila sem heimild hafa til að taka við slíkum sparnaði skv. 3. mgr. 8. gr. laganna er hins vegar ekki háður sömu takmörkunum. Þarna þótti ríkja ákveðið ójafnræði milli aðila sem bjóða upp á sömu þjónustu. Var því með lögum nr. 171/2008 gerð sú breyting að allur séreignarsparnaður mun falla undir lágmarksskilyrði um fjárfestingarstefnu.
Var nýju ákvæði bætt inn í lögin þar sem kveðið er á um að vörsluaðilar séreignarsparnaðar skuli móta fjárfestingarstefnu þar sem fjárfestingar eru sundurliðaðar með hliðsjón af 1. mgr. 36. gr. laganna, en sé að öðru leyti háð takmörkunum sem eru tilgreindar í ákvæðinu og eru nokkuð rýmri en 36. gr laganna gerir ráð fyrir. Þannig er því verið að rýmka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða þegar kemur að séreignarsparnaði en þrengja heimildir annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar. Þessi breyting á lögunum tekur hins vegar ekki gildi fyrr en 1. janúar 2010 og fellur séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða því undir 36. gr. laga nr. 129/1997 þangað til.