Breytingar á vaxtabótakerfinu
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 26. mars 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í fjárlögum ársins 2009 eru áætluð útgjöld ríkissjóðs til greiðslu vaxtabóta tæpir 8 milljarðar króna, en þessar bætur eru mikilvægur stuðningur fyrir fjölskyldur við að eignast húsnæði.
Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra nutu 58 þúsund fjölskyldur vaxtabóta á árinu 2008 og voru meðalbætur á fjölskyldu 114 þús.kr. Stofn til vaxtabóta eru þeir vextir sem fjölskyldur greiða af lánum sem tekin eru til kaupa á íbúðarhúsnæði. Ákvörðun þeirra er hins vegar einnig háð tekjum, skuldastöðu, nettóeign og hjúskaparstöðu vaxtabótaþega.
Í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir 5,7% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum vaxtabótakerfisins. Í ljósi þess mikla efnahagsvanda sem við fjölskyldum blasir, m.a. í formi aukinnar vaxtabyrði vegna mikilla gengissveiflna og verðbólgu á undanförnum mánuðum er nú til meðferðar á Alþingi frumvarp þar sem gert er ráð fyrir verulegri hækkun á vaxtabótum, eða um allt að 2 milljarða króna. Hér er um einskiptisaðgerð að ræða sem ætlað er að létta undir með heimilum landsins. Ákvörðun vaxtabóta liggur skv. venju fyrir 1. ágúst ár hvert við álagningu opinberra gjalda á tekjur fyrra árs.
Í frumvarpinu er lögð til veruleg viðbótarhækkun á viðmiðunarfjárhæðum vaxtabótakerfisins, eða um 25% á hámarki vaxtagjalda og 55% á hámarki vaxtabóta. Í þessu felst að hámarksvaxtabætur hjóna eða sambýlisfólks hækka úr 314.134 kr., en það var sú fjárhæð sem gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga, í 486.908 kr. Viðbótarhækkunin nemur samtals um 173 þús.kr. á ári, en samsvarandi hækkun fyrir einstaklinga og einstæða foreldra er 104 þús.kr. og 134 þús.kr. Þessi hækkun kemur sem fyrr segir til viðbótar þeirri 5,7% hækkun sem gert var ráð fyrir í fjárlögum sem þýðir að hámarksvaxtabætur til hjóna og sambýlisfólks hækka um 190 þús.kr. milli áranna 2008 og 2009 verði frumvarpið að lögum.
Í frumvarpinu er einnig lögð til 25% viðbótarhækkun á hámarki vaxtagjalda, sem þýðir fyrir hjón að stofn til vaxtabóta verður að hámarki 1.126 þús.kr. á ári í stað 901 þús.kr. Jafnframt er lagt til að tekjuskerðingarhlutfall bótanna verði 7,5% í stað 6% þannig að viðbótarvaxtabætur skili sér fyrst og fremst til tekjulægri fjölskyldna.