Fjármálaráðuneytið gengur frá lánasamningi við Saga Capital fjárfestingarbanka hf. og VBS fjárfestingarbanka hf. vegna yfirtekinna tryggingabréfa ríkissjóðs
Á grundvelli heimildar Alþingis frá því í lok árs 2008 var gert samkomulag milli fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands þar sem Seðlabankinn framseldi ríkissjóði kröfur vegna trygginga sem fjármálafyrirtæki höfðu lagt fram fyrir lausafjárfyrirgreiðslu. Við fall bankakerfisins s.l. haust reyndust mörg þessara tryggingabréfa verðlítil og þrátt fyrir veðköll Seðlabankans hefur tilteknum fjármálafyrirtækjum ekki reynst mögulegt að leggja fram nýjar tryggingar. Með samkomulaginu tók fjármálaráðuneytið að sér umsýslu og innheimtu þessara krafna með það að markmiði að tryggja sem best hagsmuni ríkissjóðs sem kröfueiganda. Í Seðlabankanum urðu eftir aðrar veðkröfur bankans á hendur fjármálastofnunum sem taldar voru með tryggum veðum og samrýmdust heimildum í lögum Seðlabankans um lausafjárfyrirgreiðslu við fjármálastofnanir.
Í því skyni að treysta innheimtu veðskulda, hefur fjármálaráðuneytið nú gengið frá lánasamningum við Saga Capital fjárfestingarbanka hf. og VBS fjárfestingarbanka hf. um endurgreiðslu þessara krafna. Með samningnum er verðbréfum breytt í lán til sjö ára sem er verðtryggt með 2% vöxtum.
Lántaki hefur fallist á að neðangreind skilyrði séu forsenda fyrir skuldbreytingu þessari. Standi lántaki ekki við þau skilyrði meðan skuld vegna lánsins er enn ógreidd getur lánveitandi með skriflegri tilkynningu með 30 daga fyrirvara til skuldara gjaldfellt allt lánið:
- Arður skal ekki greiddur út á lánstímanum, nema til komi samsvarandi niðurgreiðsla á höfuðstóli þessa láns;
- Kaupaukum til starfsmanna lántaka skal stillt í hóf og vera í samræmi við gengi lántaka og almennar launagreiðslur og umbun á fjármálamarkaði. Rökstuðningur vegna kaupaukagreiðslna skal lagður fram og samþykkis lánveitanda aflað áður en stofnað er til réttar starfsmanns eða stjórnarmanns til slíks kaupaukaréttar.
- Kaup lántaka á eigin bréfum til niðurfærslu hlutafjár (óbein arðgreiðsla) eru ekki heimil, en kaup eigin bréfa í veltubók lántaka og innlausn/skuldajöfnun eigin bréfa til fullnustu á lánveitingum eða öðrum skuldbindingum gagnvart lántaka eru heimil innan heimilda laga hverju sinni.
- Einstakar stórar áhættuskuldbindingar lántaka skulu ekki fara yfir 20% af CAD eigin fé.
- Ítarlegt rekstraryfirlit og skýrsla um stöðu og horfur í rekstri lántaka skal liggja fyrir á þriggja mánaða fresti og skilast til lánveitanda, í sambærilegu formi og skýrslugjöf forstjóra til stjórnar skuldara á hverjum tíma.
- Í ljósi lítilla útlána lántaka gildir ekki bann við vöxt útlána. Þó skal miða við að útlánavöxtur lántaka takmarkist við innlendan fjármögnunargrunn og vöxtur útlánasafns leiði ekki til skerts endurgreiðsluhæfis lántaka. Ítarlegu yfirliti um þróun útlána skal skilað til lánveitanda á þriggja mánaða fresti og hefur hann fulla heimild til athugasemda og setningu skilyrða um frekari vöxt útlánasafns.
- CAD-hlutfall lántaka skal ekki vera lægra en 10% á lánstímanum.
- Lántaki starfar að öðru leyti undir eftirliti FME og Seðlabanka Íslands og ber að viðhalda viðunandi lausafé og rekstrarhæfi að mati þeirra stofnana.
- Óheimilt er að auka fyrirgreiðslu til venslaðra aðila. Ekki er þó gerð athugasemd ef aukning stafar af því að einstaklingur í viðskiptum hefur störf eða tekur sæti í stjórn, eða aukning er til komin vegna breytingar á hjúskaparstöðu viðkomandi. Fyrirgreiðslum við venslaða aðila skal ætíð stillt í hóf og hagsmuna ríkissjóðs gætt í hvívetna við slíkar fyrirgreiðslur. Um skilgreiningu á vensluðum aðila er vísað til leiðbeinandi tilmæla FME nr. 4/2006.
- Allt sem innheimtist af því sem er til tryggingar láninu skal renna til lækkunar á höfuðstól lánsins þótt gjalddagi sé ekki kominn, og eru afborganir síðan reiknaðar út skv. skilmálum lánasamningsins af hinum nýja höfuðstól.
- Lántaki skal hafa lokið fyrir lok árs 2009 innleiðingu Stjórnarhátta fyrirtækja skv. 2. útgáfu leiðbeininga sem útgefnar voru af Viðskiptaráði Íslands, Kauphöll Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
- Ársreikningur lántaka fyrir árið 2008 samþykktur af stjórn og undirritaður af löggiltum endurskoðendum liggi fyrir eigi síðar en 31. mars 2009.
Verði lausafjárstaða lántaka óviðunandi að mati Seðlabankans eða CAD- hlutfall skuldara fari undir 10% á lánstímanum, getur lánveitandi krafist þess að láninu eins og það stendur í þá ásamt vöxtum og öllum kostnaði verði breytt í hlutafé, m.v. skiptahlutfallið 1. Skuldbindur lántaki sig jafnframt til þess, eftir því sem honum er unnt, að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að svo geti orðið.
Lántaki skal hvenær sem lánveitandinn óskar þess afhenda honum hverjar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegt að afla til þess að tryggja hagsmuni lánveitanda vegna lánsins, þ.m.t. upplýsingar um veittar einstakar stórar áhættuskuldbindingar. Skuldbindur lántaki sig til þess að tilkynna lánveitandunum þegar í stað öll tilvik sem fyrirsjáanleg eru að valda vanefnd á lánasamningi þessum eða fyrrnefndum skilyrðum.