Stóraukið samstarf í landkynningarmálum og undirbúningur að stofnun Íslandsstofu
Össur Skarphéðinsson utanríkis- og iðnaðarráðherra, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, skrifuðu í dag undir samning milli utanríkisráðuneytisins, Ferðamálastofu og Útflutningsráðs um stóraukið samstarf í landkynningar- og markaðssamstarfi erlendis. Er þetta samstarf undanfari stofnunar Íslandsstofu en frumvarp til laga um starfsemi hennar hefur verið samþykkt í ríkisstjórn og lagt fram á Alþingi.
Jafnframt var tilkynnt um samninga Ferðamálastofu við sjö landshlutastofur sem annast munu markaðsmál ferðaþjónustu innanlands. Með nýju skipulagi í markaðsmálum ferðaþjónustunnar og almennri landkynningu er verið að tryggja betri nýtingu fjármuna og ná auknum árangri með markvissu samstarfi þeirra sem koma að markaðs- og ímyndarmálum.
Stefnt er að því að sendiráð Íslands taki að verulegu leyti yfir hlutverk landkynningarskrifstofa Ferðamálastofu erlendis. Fram að þeim tíma sem lögin um Íslandsstofu taka gildi munu Ferðamálastofa, Útflutningsráð og utanríkisráðuneytið samræma starf sitt sem kostur er og í því skyni hefur verið sett á laggirnar verkefnisstjórn sem heldur utan um tilfærslu verkefna og uppbyggingu í sendiráðunum.
Íslandsstofa verður stofnuð á grundvelli laga um Útflutningsráð en verkefni hennar eru mun viðameiri en verkefnasvið Útflutningsráðs. Í fyrsta lagi verður markaðssvið Ferðamálastofu rekið að mestu innnan vébanda Íslandsstofu sem mun fá það lögbundna hlutverk samkvæmt framlögðu frumvarpi að laða til landsins erlenda ferðamenn. Í öðru lagi er Íslandsstofu ætlað að móta og koma á framfæri heildarstefnu í ímyndar- og kynningarmálum Íslands í samstarfi við aðila í útflutningi, ferðaþjónustu, menningarstarfsemi, fjármálum og þekkingariðnaði. Í þriðja lagi er Íslandsstofu ætlað að bæta og auka þekkingu fyrirtækja í ferðaþjónustu um erlenda markaði eins og fram kemur í hjálögðu frumvarpi til laga.
Á síðustu árum hafa ríki, sveitarfélög, ferðamálasamtök og fyrirtæki í ferðaþjónustu innanlands þróað svæðisbundið samstarf um markaðs-, upplýsinga- og uppbyggingarmál ferðaþjónustunnar. Iðnaðarráðherra hefur í samráði við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands beitt sér fyrir því að festa þetta skipulag betur í sessi. Í vikunni var gengið frá samningum milli Ferðamálastofu og sjö landshlutastofa sem vonast er til að leggi grundvöll að tryggum rekstri þeirra á næstu árum. Samstarfið byggir á sérstakri fjárveitingu og á þeirri forsendu að sveitarfélög og fyrirtæki komi einnig að rekstrinum á móti ríkinu.