Nr. 12/2009 - Samskipti við Noreg vegna makrílveiða
Vísað er til þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, átti símtal í fyrradag við starfssystur sína, Helgu Pedersen sjávarútvegsráðherra Noregs. Í kjölfar þessa símtals barst ráðuneytinu bréf frá Noregi er varðar makrílveiðar Íslendinga. Því bréfi hefur nú verið svarað með bréfi sem sent var til Noregs um hádegisbil í dag.
Með hlýnandi veðurfari undanfarna áratugi hefur makrílstofninn leitað norðar í höfin og dvelur nú í auknum mæli í íslenskri landhelgi. Íslendingar telja sig vera í fullum rétti að veiða makríl innan sinnar lögsögu. Makrílveiðar Íslendinga eru lögmætar og því rangt að tala um ólögmætar veiðar. Ísland er strandríki líkt og veiðarnar í íslensku lögsögunni sanna og slíkar veiðar stranríkja í eigin lögsögu heyra ekki undir Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndina (North East Atlantic Fisheries Commisson – NEAFC) og við eigum því sama rétt til veiða á makríl í íslensku lögsögunni og Norðmenn, Færeyingar og ESB til að veiða á markríl í sínum lögsögum. Þessar þjóðir hafa hins vegar útilokað okkur frá þáttöku í stjórn veiðanna í meira en áratug þó það liggi fyrir að þessi ríki hafi skyldur til að semja við okkur samkvæmt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og Úthafsveiðisamningnum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf út reglugerð um makrílveiðar 2009 nú nýlega. Þar var í fyrsta skipti sett viðmiðun um hámarksafla upp á 112.000 tonn en fram að þessu hafa makrílveiðarnar verið frjálsar.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bauð í bréfi sínu til sjárútvegsráðherra Noregs, að Ísland væri tilbúið til þess að halda sérstakan fund strandríkja er málið varðar sem fyrst hér heima á Íslandi. Samsvarandi boð mun verða sent til Færeyja og ESB eftir helgina.
Loks skal þess getið að sjávarútvegs- og landúnaðarráðherra hefur óskað eftir því við formenn sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og utanríkismálanefndar Alþingis að hann mæti á sameiginlegan fund þessara nefnda á mánudagsmorgun til að kynna stöðu þessara mála.