Hoppa yfir valmynd
31. mars 2009 Matvælaráðuneytið

Nefnd um stefnumótun í samræmi við lög um landshlutaverkefni í skógrækt

Nefnd um stefnumótun í samræmi við lög um landshlutaverkefni í skógrækt

Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd sem vinni að langtímastefnumótun fyrir íslenska nytjaskógrækt í samræmi við lög um landshlutaverkefni í skógrækt nr. 95/2006.

Mat skal lagt á hvernig til hefur tekist með framkvæmd landshlutaverkefnanna til þessa með hliðsjón af umfangi gróðursetningar og árangri og öðrum mælikvörðum sem rétt er að hafa til hliðsjónar. Meðal þátta sem skoða skal eru:

·         Skipulag og rekstur landshlutaverkefnanna.

·         Þáttur landshlutaverkefnanna í uppbyggingu atvinnulífs og byggðaþróun.

·         Hlutverk landshlutaverkefnanna í viðbrögðum Íslands við loftslagsvandanum og í hagvörnum.

·         Þarfir landshlutaverkefnanna á sviði rannsókna og nýsköpunar og til að auka framleiðni í ræktun skóga.

·         Möguleikar á afsetningu afurða úr skógum.

·         Náttúruverndarsjónarmið.

·         Viðhorf til landnotkunar í íslenskum landbúnaði.

·         Fræðsla og menntun í skógrækt.

 

  • Jón Birgir Jónsson fv. ráðuneytisstjóri hefur verið skipaður formaður nefndarinnar og með honum starfa eftirtaldir:
  • Valgerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga
  • Þorsteinn Tómasson, skrifstofustjóri sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneyti
  • Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins , Mógilsá
  • Áslaug Helgadóttir, prófessor og deildarforseti auðlindadeildar Landbúnaðarháskóla Íslands
  • Svana Halldórsdóttir, bóndi og stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands
  • Edda Björnsdóttir, skógarbóndi, formaður Landssamtaka skógareigenda
  • Jón Geir Pétursson, skógfræðingur umhverfisráðuneyti
  • Jón Loftsson, skógræktarstjóri
  • Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri.

 

Nefndin skal skila áfangaskýrslu með haustinu 2009, sem kann að leiða til að skerpt verði á tilteknum þáttum í erindisbréfi nefndarinnar, svo sem endurskoðun laga. Áhersla er lögð á að drög að áfangaskýrslunni skulu lögð fyrir fagráð um landgræðslu og skógrækt, sem starfar í umboði sjávarútvegs- og landbúnaðarrráðherra og umhverfisráðherra. Einnig skal nefndin taka mið af  stefnumörkunarvinnu þeirri sem skógræktarstjóri vinnur að í umboði sömu ráðuneyta eftir því sem því verki vindur fram.

 

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stóð fyrir setningu laga um Héraðsskóga árið 1991 sem þáverandi landbúnaðarráðherra.  Í kjölfar þeirra voru samþykkt lög um Suðurlandsskóga 1997 og þróunin hélt áfram og loks voru samþykkt almenn lög um landshlutabundin skógræktarverkefni árið 2006. Reynslan af landshlutverkefnum í skógrækt  hefur verið mjög góð og mikill áhugi um land allt á verkefnunum, ekki aðeins meðal þátttakenda heldur einnig annarra svo sem sveitarstjórna og almennings. Árið 2006 höfðu verið gerðir um 760 samningar við skógræktarbændur og aðra landeigendur og rúmlega 100 jarðir eru á biðlista. Alls höfðu þá verið gróðursettar um 40 milljónir plantna í um 18 þúsund hektara lands, en þetta hefur auðvitað aukist síðan. Segja má að með þessum verkefnum sé kominn vísir að auðlind hér á landi, sem er skógurinn sjálfur og afurðir hans. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bindur miklar vonir við landshlutaverkefnin og telur að þau megi efla enn frekar þegar loftslagsmálin eru orðin svo mikilvæg eins og raunin er. 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta