Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Breyting á tollalögum nr. 88/2005 og lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál með síðari breytingum

Fréttatilkynning nr. 22/2009

Hinn 28. nóvember sl. var samþykkt á Alþingi breyting á lögum um gjaldeyrismál sem ætlað var að sporna gegn hættu á verulegri gengislækkun íslensku krónunnar. Með lögunum var Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að setja reglur sem takmarka fjármagnsflutninga milli landa en tilgangur þeirra er að takmarka útflæði gjaldeyris meðal annars með reglum um skilaskyldu gjaldeyris. Nú er svo komið að gengi krónunnar hefur lækkað síðustu vikur og er sterk vísbending þess að markmið um að byggja upp gjaldeyrisforða með skilaskyldu gjaldeyris sé ekki að ganga eftir. Helsta ástæðan fyrir því er sú að útflutningsaðilar eru ekki skuldbundnir að selja afurðir sínar í erlendum gjaldmiðli. Breyting sú sem samþykkt var í gær er ætlað að loka fyrir þessa leið framhjá lögunum.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og tollyfirvöldum eru vísbendingar um að verðmæti útfluttrar vöru sem greitt er fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári sé nærri tveimur milljörðum meira en á sama tíma árið 2008. Innflutningur til landsins hefur dregist mikið saman, sem ætti að gefa frekari grundvöll fyrir styrkingu krónunnar. Gengislækkun krónunnar gefur því vísbendingar um að einhverjir útflytjendur fái greitt fyrir vörur sínar innanlands með íslenskum krónum en að kaupandinn greiði, annaðhvort beint eða í gegnum millilið, í erlendum gjaldmiðli til aðila utan landsteinanna. Þessi viðskipti hafa dregið úr áhrifamætti gjaldeyrisreglna Seðlabankans.

Breyting á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum er ætlað að koma í veg fyrir að dregið sé úr áhrifamætti laga og reglna um gjaldeyrismál. Breytingarnar fela í sér að nýju bráðabirgðaákvæði var bætt við lög um gjaldeyrismál sem kveður á um að útflutningsviðskipti vöru og þjónustu skuli fara fram í erlendum gjaldmiðli. Breytingin á tollalögum felur í sér að á útflutningsskýrslu skuli viðskiptaverð vöru skráð í erlendum gjaldmiðli og eftirlit mun verða haft með því að þessum lögum verði fylgt. Breytingar þessar eru tímabundnar til 30. nóvember 2010, sem er sama tímabil og áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika vegna lánsumsóknar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tekur til.

Fjármálráðuneytinu, 1. apríl 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta