Utanríkisráðherra sækir leiðtogafund NATO
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sækir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem verður haldinn 3. – 4. apríl nk. í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá stofnun bandalagsins. Hann verður haldinn beggja vegna landamæra Þýskalands og Frakklands (Strasbourg / Kehl) til marks um vináttu og samstarf þessara tveggja stóru evrópsku grannríkja.
Fundarstaðurinn felur einnig í sér formlega staðfestingu á sögulegri ákvörðun franskra stjórnvalda um að hefja aftur þátttöku í samræmdu herstjórnarkerfi bandalagsins.
Á fundinum verður m.a. fjallað um framtíðarhlutverk Atlantshafsbandalagsins, samskipti þess við Rússland, aðgerðir bandalagsins í Afganistan og Kosóvó og áframhaldandi aðlögun varnarviðbúnaðar að breyttri heimsmynd, Auk almennrar yfirlýsingar fundarins er gert ráð fyrir samþykkt sérstakrar yfirlýsingar um öryggi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og annarrar um ástand og horfur í Afganistan.
Á fundinum verða Albanía og Króatía tekin í hóp fullgildra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins en það sýnir glöggt að dyr þess standa áfram opnar evrópskum lýðræðisríkjum sem æskja aðildar og uppfylla skilyrði þar um.
Vegna mikilla anna á innanlandsvettvangi þarf Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að hverfa frá áformum um þátttöku í leiðtogafundinum og í hennar stað verður utanríkisráðherra, fulltrúi ríkisstjórnar Íslands.
Yfirlýsingar leiðtogafundarins verða birtar á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins www.nato.int.