Samgönguráðherra á opnum fundi hjá samgöngunefnd Alþingis
Í máli sínu fór samgönguráðherra yfir helstu framlög til samgöngumála á árinu en eins og fram hefur komið verður 21 milljarði króna varið til vegaframkvæmda og af þeim fara um 6 milljarðar til nýrra verkefna, meginhluti fjármagnsins fer í verkefni sem haldið er áfram frá fyrra ári. Þá fer um einn milljarður króna í styrki til sérleyfishafa og ferjurekstrar, um 1,3 milljarðar til hafnargerðar og sjóvarna, um 320 milljónir í flugmál auk 340 milljóna í styrki til innanlandsflugs.
Ráðherra nefndi helstu verkefni sem hafa verið boðin út að undanförnu og verða boðin út á næstunni svo sem Vestfjarðarveg milli Vatnsfjarðar og Kjálkafjarðar, síðari áfanga tengingar Vopnafjarðar við Hringveginn, Raufarhafnarleið, Álftanesveg, Bræðratunguveg, Arnarnesveg og áfanga í tvöföldun Suðurlandsvegar milli Lögbergsbrekku og Litlu kaffistofunnar.
Þá sagði ráðherra síðari áfanga Suðurstrandarvegar verða boðinn út á árinu og til stendur að bjóða út ýmis minni verkefni, meðal annars á tengivegum víðs vegar um landið. Einnig eru ýmis verkefni fyrirhuguð á höfuðborgarsvæðinu sem greiða eiga fyrir umferð. Þá upplýsti ráðherra að til stæði að ljúka gerð samkomulags við Reykjavíkurborg vegna samgöngumiðstöðvar og væru vonir bundnar við að framkvæmdir gætu hafist á árinu.
Fulltrúar í samgöngunefnd spurðu ráðherra meðal annars um tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar, hvað liði undirbúningi samgönguáætlunar og hvenær hún yrði lögð fyrir Alþingi, hvort vöruflutningar yrðu færðir af vegum á sjó, um vegagerð á Barðaströnd og fleira.
Ráðherra sagði undirbúning samgönguáætlunar þegar hafinn, samgönguráð hefði meðal annars átt fundi með fulltrúum atvinnulífsins og væri um þessar mundir að funda með sveitarstjórnarmönnum og samtökum atvinnulífs víða um land. Vegna efnahagshrunsins og síðar stjórnarskipta og óvissu um fjárlagagerð næstu ára hefði ekki reynst unnt að ljúka smíði tillagna samgönguáætlunar og kvað ráðherra það bíða næsta samgönguráðherra að leggja þær fyrir Alþingi á nýju þingi.
Fram kom í fundarlok ánægja nefndarmanna og ráðherra með fund sem þennan og að brýnt væri að halda nefndinni og Alþingi upplýstu um áætlanir í samgöngumálum.