Vöruskiptin í mars 2009
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 2. apríl 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands nam verðmæti vöruútflutnings (fob) í mars 34,9 ma.kr.
Verðmæti vöruinnflutnings nam aftur á móti 26,6 ma.kr. sem er svipuð útkoma og í febrúar og hefur ekki verið lægra í einum mánuði í þrjú ár. Afgangurinn á vöruskiptunum í mars nam því 8,3 ma.kr. sem er nokkuð betri útkoma en í febrúar þegar afgangurinn nam 5,9 ma.kr.
Flestir undirliðir innflutningsins eru að þessu sinni mjög svipaðir og í febrúar. Annan mánuðinn í röð er innflutningur hrá- og rekstrarvara með minnsta móti sem bendir til þess að heimsmarkaðsverð á áloxíði sé mjög lágt um þessar mundir. Nokkur aukning er aftur á móti í innflutningi á hálf-varanlegri neysluvöru eins og fatnaði.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða vex lítillega annan mánuðinn í röð en er þó lágt samanborið við síðustu mánuði sl. árs. Útflutnings-verðmæti áls er lágt þriðja mánuðinn í röð þar sem heimsmarkaðsverð áls er nú með lægsta móti en útflutningsverðmæti kísiljárns er aftur á móti hátt.