Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2009 Matvælaráðuneytið

Makrílveiðar Íslendinga

Makríll hefur lengi verið innan íslenskrar lögsögu en undanfarin ár hefur veiði á honum aukist verulega. Makríllinn veiðist fyrst og fremst sem meðafli í síldveiðum á miðunum fyrir austan land en hann hefur komið í veiðarfæri skipa með allri suðurströndinni.

Stjórn makrílveiða er í tveimur þrepum, annars vegar byggir hún á strandríkjasamningi sem nær til lögsagna strandríkja og hins vegar á stjórnun sem samþykkt er á vettvangi Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) sem nær til úthafsins. Strandríki semja um heildaraflahámark og úthlutun sín á milli. Að því loknu semja þau við önnur ríki um hlut þeirra á úthafinu á vettvangi NEAFC. Um er að ræða sama ferli og á sér t.d. stað við stjórnun á kolmunna og norsk-íslenskri síld, þar sem Ísland er strandríki og semur á þeim grundvelli við önnur strandríki.

 

Frá því að stjórn makrílveiða hófst innan NEAFC hafa íslensk stjórnvöld alla tíð krafist viðurkenningar sem strandríki að makrílstofninum og þar með þátttöku í samningaviðræðum strandríkja. Til þessa hefur ekki verið tekið undir kröfu okkar og Íslandi verið meðvitað haldið utan við samningaviðræður. Á grundvelli þessa hefur Ísland mótmælt samkomulaginu sem hefur verið gert innan NEAFC og þ.a.l. ekki verið bundið af því. Ísland hefur því aldrei samþykkt þann kvóta sem hin strandríkin hafa ætlað okkur.

 

Samkvæmt Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna er Ísland óumdeilanlega strandríki að makríl. Undanfarin ár hafa hin strandríkin dregið í efa magn makríls innan íslensku lögsögunnar og talið að íslensk stjórnvöld þurfi að sanna með afgerandi hætti að makríl sé að finna í verulega veiðanlegu magni. Árið 2007 veiddu íslensk skip rúm 30 þús. tonn og 2008 voru veiðarnar 112 þús. tonn. Það er því óumdeilanlegt að makríll er innan íslenskrar lögsögu og jafnframt að magn hans hefur aukist undanfarin ár. Töluverðar líkur eru á að sú aukning haldi áfram í ljósi hlýnunar sjávar. Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur Íslandi verið neitað um að taka þátt í samningaviðræðum strandríkja um stjórn makrílveiða.

Gildandi samkomulag um stjórn makrílveiða nær til úthafsins á samningssvæði NEAFC og lögsögu Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja. Samkomulagið nær ekki til íslenskrar efnahagslögsögu. Slíkt samkomulag nær ekki yfir lögsögu strandríkis nema strandríki samþykki slíkt. Veiðar íslenskra skipa hafa nær undantekningalaust verið utan þess svæðis sem samkomulagið nær til. Þegar veiðarnar færðust út fyrir lögsögu árið 2008 setti Ísland sér einhliða kvóta á úthafinu í samræmi við reglur NEAFC. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf út reglugerð um makrílveiðar 2009 nú nýlega. Þar var í fyrsta skipti sett viðmiðun um hámarksafla upp á 112.000 tonn, þar af er heimilt að veiða allt að 20.000 tonn á úthafinu.

 Ísland er í fullum rétti að nýta auðlind sem er innan efnahagslögsögu landsins og halda öðru fram er í þversögn við alþjóðalög. Hins vegar fylgir þeim rétti að nýta sameiginlega auðlind, sú skylda að ríki leiti eftir samvinnu við önnur strandríki. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað krafist þess að Íslandi verði boðið að samningsborðinu þegar samið er um stjórn makrílveiða þannig að Ísland verði aðili að strandríkjasamkomulagi því sem ESB, Noregur og Færeyjar standa að og þar með bundið þeim ákvæðum sem samið er um. Það er ábyrgðarleysi annarra strandríkja að neita einu strandríki aðkomu að samningaviðræðum þegar þess hefur verið krafist í fjölda ára.

Íslensk stjórnvöld hafa boðið hinum strandríkjunum til fundar um miðjan apríl til að finna farsæla lausn á framtíðarstjórnun makrílveiða í Norðaustur Atlantshafi.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta