Nr. 14/2009 - Tillaga nefndar um ný lög um hvali lögð fram til kynningar
Þann 18. febrúar sl. kynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, að hann myndi þá þegar láta hefja vinnu við endurskoðun laga um hvalveiðar. Í því skyni skipaði hann þriggja manna nefnd til þess að gera tillögu um endurskoðun laga um hvalveiðar nr. 26/1949.
Núgildandi lög bera sterk kennimerki liðins tíma og þarfnast endurskoðunar með hliðsjón af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Nefndinni var ætlað að hafa hliðsjón af öðrum lögum um nýtingu sjávarauðlinda í því skyni að tryggt verði, eftir því sem kostur er, að samræmis og jafnræðis verði gætt við framkvæmd laganna.
Framangreind nefnd hefur nú lokið störfum og skilað af sér tillögu að nýjum lögum um hvali , sem nú má líta á heimasíðu ráðuneytisins ásamt skilabréfi nefndarinnar.
Augljóst er að ekki verða lögð fram fleiri frumvörp á þessu þingi og það verður því verkefni nýs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að aflokunum kosningum að taka afstöðu til tillagna nefndarinnar.