Starfshópur um aukinn hlut kvenna í sveitarstjórnum
Formaður starfshópsins er Sigrún Jónsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi, og aðrir í hópnum eru Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir menntunarfræðingur, Herdís Þórðardóttir bæjarfulltrúi, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi, Unnur Brá Konráðsdóttir sveitarstjóri og Halldór V. Kristjánsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgönguráðuneytinu, mun starfa með starfshópnum, auk sérfræðings frá Jafnréttisstofu sem er Bergljót Þrastardóttir og tengiliður við félags- og tryggingamálaráðuneytið er Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri.
Samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra leggur til að starfshópurinn skili tillögum til sín fyrir 1. júlí 2009 um þær aðgerðir eða leiðir sem starfshópurinn telur koma til greina að farnar verði til að ná ofangreindum markmiðum. Skoða ber sérstaklega þörf fyrir aðgerðir í minni sveitarfélögum. Í framhaldinu mun ráðherra ákveða frekari aðgerðir.
Þrátt fyrir það að hlutfall kvenna í sveitarstjórnum hafi aukist mikið síðustu áratugina hallar enn verulega á konur. Við síðustu sveitarstjórnarkosningar 2006 voru kjörnar 189 konur í sveitarstjórnir, eða 36% og karlar 340 eða 64%. Í fimm sveitarfélögum var engin kona kjörin í sveitarstjórn. Konur voru hins vegar í meirihluta í 11 sveitarstjórnum eftir kosningarnar, en höfðu verið í meirihluta í 10 sveitarfélögum á fyrra kjörtímabili.
Samgönguráðherra telur æskilegt að unnið verði að því markmiði að hlutfall kvenna og karla í sveitarstjórnum verði sem næst 50% á landsvísu við sveitarstjórnarkosningarnar 2010 og að engin sveitarstjórn verði einvörðungu skipuð öðru hvoru kyninu.
Starfshópur um aukinn hlut kvenna í sveitarstjórnum kom saman í dag. Frá vinstri: Bergljót Þrastardóttir, Þórunn Matthíasdóttir, Guðrún Ágúst Guðmundsdóttir, Stefanía Traustadóttir, Sigrún Jónsdóttir, Halldór V. Kristjánsson og Herdís Þórðardóttir. Á myndina vantar Unni Brá Konráðsdóttur og Inga Val Jóhannsson. |