Nýir skrifstofustjórar skipaðir í samgönguráðuneyti
Karl Alvarsson lögfræðingur hefur starfað í samgönguráðuneytinu frá árinu 2003. Hefur hann gegnt stöðu sérfræðings og var síðar settur skrifstofustjóri. Karl hefur þegar tekið við embættinu.
Sigurbergur Björnsson hefur starfað í samgönguráðuneytinu frá árinu 2001. Hann var skrifstofustjóri skrifstofu fjarskipta og öryggismála samgangna en hefur undanfarin þrjú ár starfað sem fulltrúi ráðuneytisins í Brussel. Sigurbergur kemur til starfa í ráðuneytinu í sumar.
Nýtt skipurit samgönguráðuneytisins tók gildi 1. febrúar síðastliðinn þegar skrifstofum ráðuneytisins var fækkað, málefni flutt milli skrifstofa og verkaskipting gerð skýrari. Í framhaldi af því voru stöður tveggja skrifstofustjóra auglýstar og bárust kringum 60 umsóknir um hvora stöðu.
Nöfn fjögurra skrifstofa samgönguráðuneytisins og verkefni þeirra eru eftirfarandi:
-
Stjórnsýslu og fjármálaskrifstofa. Sér um almennan rekstur og starfsmannahald ráðuneytisins, fjárlagagerð, árangursstjórnun, lögfræði og stjórnsýslu.
-
Samskiptaskrifstofa. Innviðir fjarskipta, fjarskiptaáætlun, öryggismál, upplýsingasamfélagið, póstmál og fjarskiptasjóður.
-
Samgönguskrifstofa. Innviðir samgangna, samgönguáætlun, flutningar, öryggi, slysarannsóknir, almenningssamgöngur.
-
Skrifstofa sveitastjórnarmála. Undir hana fellur einnig Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sem er sjálfstæð eining undir stjórn forstöðumanns. Helstu verkefni eru varðandi tekjustofna, kosningar, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og sameiningu sveitarfélaga.