Vakað yfir velferðinni
Á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru síðan Ásta R. Jóhannesdóttir, félags-og tryggingamálaráðherra, skipaði velferðarvaktina hafa fulltrúar ríkis, sveitarfélaga og hagsmuna- og félagasamtaka hist vikulega til þess að afla upplýsinga um félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar bankahrunsins á einstaklinga og fjölskyldur, afla upplýsinga um reynslu annarra þjóða af efnahagsþrengingum, kortleggja hvaða leiðir ríki, sveitarfélög og félagasamtök hafa til að bregðast við og efna til samráðs með þeim sem lagt geta af mörkum vegna þekkingar sinnar og reynslu.
Lára Björnsdóttir, formaður stýrihóps velferðarvaktarinnar, segir að „starf velferðarvaktarinnar sé afar mikilvægt því brýnt sé að vel sé fylgst með áhrifum efnahagsástandsins á fólkið í landinu til að hægt sé að bregðast við á viðeigandi hátt. Mikil óvissa ríki um þessar mundir í samfélaginu og undir þeim kringumstæðum sé ekki síst mikilvægt að huga að heilsunni og því hvetji velferðarvaktin alla til að huga að hreyfingu, næringu, svefni og félagsskap.“
Velferðarvaktin hefur skipað vinnuhópa sem hver um sig tekur fyrir brýnt málefni sem snertir einstaklinga og fjölskyldur. Sérstakur ráðgjafarhópur um rannsóknir er velferðarvaktinni til leiðbeiningar um upplýsingar úr fyrirliggjandi rannsóknum og hvar bæta þurfi úr þekkingu á viðfangsefninu. Þá hefur verið komið á fót teymi um þróun félagsvísa sem mæla eiga félagsleg áhrif efnahagsástandsins.
Vinnuhópar velferðarvaktarinnar skiluðu áfangaskýrslum um sína málaflokka. Áfangaskýrslurnar gefa yfirlit yfir stöðuna nú, hvaða afleiðingar efnahagsástandið hefur haft og hver næstu skref eigi að vera. Áfangaskýrslur vinnuhópanna um fjármál heimilanna, fólk án atvinnu, áhrif kreppu á heilsufar, ungmenni, ungt fólk, börn og þá sem standa höllum fæti má nálgast á vef velferðavaktarinnnar: www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/skyrslur/
Í áfangaskýrslu þeirri sem stýrihópur velferðarvaktarinnar skilaði félags- og tryggingamálaráðherra er greint frá helstu atriðum sem stýrihópurinn leggur áherslu á, tillögum til úrbóta og verkefnum framundan. Tillögur hópsins spanna vítt svið og varða jafnt úrræði til að bregðast við fjárhagslegum vanda fólks eða félagslegum og heilsufarslegum afleiðingum efnahgsástandsins.
Áfangaskýrslu stýrihóps velferðarvaktarinnar má nálgast vef svæði velferðarvaktarinnar: www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/skyrslur/
Vakin er athygli á vefsvæði velferðarvaktarinnar, en þar má nálgast ýmsar upplýsingar og fróðleik, skýrslur og fundargerðir vaktarinnar auk þess sem hægt er að senda vaktinni ábendingar. Slóðin er: www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/