Endurbætur á Miðgarði í Skagafirði
Árið 2005 var gert samkomulag menntamálaráðuneytis, sveitarfélags Skagafjarðar og Akrahrepps vegna uppbyggingar og endurbóta á Miðgarði í Skagafirði sem menningarhúss. Gert var ráð fyrir að heildarkostnaður við framkvæmdirnar yrðu eigi hærri en 100 m.kr. og að framlag ríkissjóðs yrði allt að 60 m.kr. Hafist var handa við verkið á árinu 2006.
Nú liggur fyrir að kostnaður við endurbæturnar verður ekki undir 220 m.kr. Falast var eftir því við menntamálaráðuneytið að það yki við kostnaðarþátttöku sína í verkinu. Á haustmánuðum árið 2007 lýsti ráðuneytið vilja til þess að auka framlag sitt um 30 m.kr., meðal annars vegna verðlagsbreytinga á byggingartíma, enda fengist til þess fjármagn af fjárveitingu til menningarhúsa.
Menntamálaráðherra mun í næstu viku undirrita samkomulag við sveitarfélögin Akrahrepp og Skagafjörð um fyrrnefnt 30 m.kr. viðbótarframlag og greiðslu þess og fullnusta þannig gefin fyrirheit af hálfu ráðuneytisins.