Siðareglur utanríkisþjónustunnar
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur undirritað siðareglur fyrir utanríkisþjónustuna, sem þegar hafa tekið gildi. Er utanríkisráðuneytið þar með fyrst ráðuneyta til að setja siðareglur en ríkisstjórnin skipaði nýverið starfshóp til að semja almennar siðareglur fyrir opinbera starfsmenn.
Vinna við siðareglurnar hefur staðið yfir í hálft ár en vegna starfsemi utanríkisþjónustunnar í fjölmörgum löndum út um allan heim er talið nauðsynlegt að hún setji eigin siðareglur. Gert er ráð fyrir að þær verði síðan aðlagaðar að hinum almennu reglum stjórnarráðsins ef þörf krefur.
Markmið reglnanna er að stuðla enn frekar að góðum starfsháttum innan utanríkisþjónustunnar. Þær fjalla m.a. um samskiptareglur, gjafir, innherjaviðskipti, mann- réttindi, hagsmunaárekstra og friðhelgismál. Reglurnar gilda fyrir alla starfsmenn, bæði hérlendis og erlendis, þ.m.t. þá erlendu starfsmenn sem vinna fyrir utanríkisþjónustuna um allan heim. Innan utanríkisþjónustunnar starfar fjöldi einstaklinga af mismunandi þjóðerni, trúarbrögðum og lífsháttum. Einnig eru margir starfsmenn flutningsskyldir milli landa og þurfa að aðlagast nýjum starfsháttum.