Skýrsla um bankaleynd
Vegna umfjöllunar um bankaleynd að undanförnu ákvað viðskiptaráðuneytið að fá sérfræðing til að vinna skýrslu um bankaleynd og var Dóra Guðmundsdóttir lögfræðingur fengin til verksins.
Í skýrslunni er að finna yfirlit um ákvæði íslenskra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu fjármála- og eftirlitsstofnana og samanburð við sambærilegar reglur í Danmörku, Noregi, Þýskalandi og Bretlandi. Jafnframt er gerður almennur samanburður á íslenskum reglum og reglum Sviss, Lúxemborgar og Liechtenstein sem þekkt eru fyrir ríka bankaleynd.
Í skýrslunni er í fyrsta lagi fjallað um hugtakið bankaleynd. Þar kemur fram að hugtakið er ekki skilgreint í íslenskum lögum og einnig að í almennri umræðu sé hugtakið rýmra en lagaleg afmörkun þess bendi til. Þá kemur fram að hér á landi sé þagnarskylda starfsmanna um upplýsingar um viðskiptavini lögbundin, líkt og í Noregi og Danmörku og að brot á þagnarskyldunni varði refsingu. Í öðrum ríkjum, t.d. í Þýskalandi og Bretlandi, byggi þagnarskyldan á samningi aðila þar sem brot á þagnarskyldu varði einkaréttarlegum viðurlögum frekar en refsiviðurlögum. Þá er fjallað um dómaframkvæmd um ákvæði um bankaleynd og um tengsl ákvæða um þagnarskyldu og upplýsingaskyldu.
Það er niðurstaða skýrslunnar að ákvæði íslenskra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu fjármála- og eftirlitsstofnana séu í aðalatriðum sambærileg reglum samanburðarríkjanna. Af niðurstöðu skýrslunnar má ráða að nokkur munur sé á reglum um þagnarskyldu eftirlitsaðila, að því er varðar þá sem miðla má upplýsingum til. Minni takmarkanir er t.d. að finna í dönskum og breskum rétti á því hverjir geta fengið aðgang að upplýsingum frá fjármálaeftirliti en í íslenskum, norskum og þýskum rétti. Niðurstaða þessi er þó sett fram með fyrirvara um nýjar heimildir íslensks réttar vegna hlutverks sérstaks saksóknara og rannsóknarnefndar um fall íslensku bankanna og hugsanlegar heimildir á öðrum sviðum réttarins.
Í framhaldi af þessu mun viðskiptaráðuneytið fara yfir niðurstöður skýrslunnar og gera tillögur um breytingar. Þá er einnig á vegum ráðuneytisins unnið að breytingum á reglum um upplýsingagjöf um eignarhald og tengsl eigenda fjármálafyrirtækja.
viðskiptaráðuneytinu, 17. apríl 2009
Skýrsluna í heild má nálgast á heimasíðu viðskiptaráðuneytisins.
Bankaleynd: lagaumhverfi og framkvæmd á Íslandi og í öðrum Evrópuríkjum (PDF-skjal, 88 síður)