Nr. 16/2009 - Breytingar á gildandi búvörusamningum
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Bændasamtök Íslands undirrituðu í dag breytingar á gildandi samningum um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og sauðfjárræktar. Samningarnir eru gerðir með heimild í 30. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.
Eins og kunnugt er var ákveðið í fjárlögum 2009 að skerða samningsbundnar greiðslur samkvæmt búvörusamningum vegna fyrirséðra erfiðleika í ríkisfjármálum í kjölfar bankahrunsins. Aðilar hafa síðan kannað nánar réttarstöðu gildandi samninga og er niðurstaðan sú að veruleg réttaróvissa ríki um ofangreindar skerðingar gagnvart rétti einstakra bænda. Af þessum sökum hafa að undförnu farið fram samningaviðræður milli ríkisvaldsins og bænda og hefur náðst sátt um svofelldar breytingar á gildandi búvörusamningum:
- Framlög á árinu 2009 verði samkvæmt fjárlögum.
- Framlög ársins 2010 verði 2% hærri en 2009, óháð verðlagsþróun.
- Árið 2011 hækki framlög aftur um 2%, en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að framlag ársins uppfylli ákvæði gildandi samnings. Þó verði hækkun milli ára ekki umfram 5%.
- Árið 2012 verði greitt samkvæmt gildandi samningi, en þó með fyrirvara um 5% hámarkshækkun eins og árið 2011.
- Allir samningarnir verði framlengdir um tvö ár, að mestu á óbreyttum forsendum.
Þessi samningsniðurstaða felur í sér að bændur gera sér grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í ríkisfjármálum, en fyrir liggur að gæta verður mikils aðhalds á næstu árum. Bændur færa umtalsverða fórn í tvö til þrjú ár miðað við gildandi samninga en fá í staðinn framlengingu um tvö ár þegar ætla má að ástand hafi batnað. Samkomulagið felur í sér aukið rekstraröryggi í landbúnaði til lengri tíma. Það er ekki síst mikilvægt nú með tilliti til fæðuöryggis þjóðarinnar.
Það er mat Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að með þessu samkomulagi sé stigið mikilvægt skref í átt til þjóðarsáttar um nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við þá erfiðu tíma sem þjóðin gengur nú í gegnum.
Samkomulagið er undirritað með fyrirvara um nauðsynlegar lagabreytingar Alþingis og samþykki í atkvæðagreiðslu meðal bænda.