Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC) lokar stórum svæðum á Atlantshafshryggnum til að vernda viðkvæm vistkerfi
Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndin samþykkti nýverið að loka stórum svæðum á Atlantshafshryggnum til að vernda viðkvæm vistkerfi fyrir skaðlegum áhrifum botnveiðarfæra. Lokunin nær til 5 svæða og er viðbót við þau svæði sem þegar hefur verið lokað í sama tilgangi. Samanlagt eru hin nýju svæði 330.000 km2 eða sem nemur ríflegri þrefaldri stærð Íslands. Sá hluti Atlantshafshryggjarins sem ekki fellur undir lokanir er skilgreindur sem “nýtt svæði” og gilda sérstakar reglur um hugsanlegar botnveiðar á slíkum svæðum.
Gul svæði eru nýjar lokanir á samningssvæði NEAFC. Græn svæði eru eldri lokanir á Hatton-Rockall svæðinu. Hvítar línu afmarka svæði sem kortlagt hefur verið sem veiðislóð botnveiðarfæra en hafsvæðið utan þeirra svæða er skilgreint sem “nýtt svæði”. Rauð lína markar úthafið á samningssvæði NEAFC.
Í janúar síðastliðnum gengu í gildi stjórnunarráðstafanir sem ætlað er að styðja við frekari verndun viðkvæmra vistkerfa á úthafinu á samningssvæði NEAFC. Í aðdraganda þess hafa allar botnfiskveiðar sl. 20 ára á samningssvæði NEAFC hafa verið kortlagðar. Þar sem botnfiskveiðar hafa ekki áður átt sér stað er einungis heimilt að stunda tilraunaveiðar sem fylgja ákveðnum skilyrðum s.s. um eftirlit og töku sýna. Á grunni þeirra upplýsinga sem fást við slíkar veiðar, á svæðum þar sem botnfiskveiðar hafa ekki verið stundaðar áður, er ákveðið hvort botnfiskveiðar á nýju veiðisvæði verða heimilaðar. Þá taka aðildarríkin á sig þá skyldu að skip þeirra stöðvi veiðar tafarlaust komi í ljós að veiðarnar raski viðkvæmum vistkerfum á hafsbotni sbr. reglur NEAFC um botnfiskveiðar á samningssvæði nefndarinnar.