Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 29. apríl 2009

1. tbl. 11. árg.
Útgefið 29. apríl 2009
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Ráðuneytisstjóri
Vefur:
www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang:
[email protected]

Fréttabréfið er einnig fáanlegt á PDF-formi sem er afar hentugt til útprentunar og sem unnt er að lesa með forritinu Adobe Acrobat Reader.

Fréttir af mannauðskerfum ríkisins

Ráðningarkerfi fyrir ríkisstofnanir er eitt af þeim verkefnum sem starfshópur um innleiðingu mannauðshluta Oracle (Orra) hefur unnið að síðustu mánuðina. Kerfið hefur nú þegar verið sett upp hjá þremur stofnunum. Það hefur verið tekið í notkun á Landspítalanum og er tilbúið til uppsetningar og notkunar fyrir þær ríkisstofnanir sem óska eftir að taka það upp. Unnið er nú að frekari þróun á kerfinu vegna embættismanna í samvinnu við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og embætti Ríkislögreglustjóra sem gerir þeim mögulegt að nota kerfið en ferlið vegna skipunar embættismanna er ólíkt almennu ráðningarferli. Gert er ráð fyrir að 2. útgáfa ráðningarkerfisins verði tilbúin 1. júní n.k.

Ráðningarkerfinu er ætlað að tryggja betri gæði á ráðningarferlinu og gera stofnunum kleift að skrá laus störf og senda starfsauglýsingar á heimasíðu stofnunar og á Starfatorgið. Umsækjendur sækja rafrænt um laus störf, stofnunin tekur á móti umsóknum, sendir upplýsingar og bréf til umsækjenda og getur fundið hæfasta umsækjandann út frá fyrirfram skilgreindum mælikvörðum. Þegar ráðningarferlinu lýkur er útbúinn ráðningarsamningur og allar upplýsingar um umsækjandann sendar beint þaðan í launakerfið í Orra. Vinnsla í ráðningarkerfinu getur bæði verið framkvæmd af stofnunum sjálfum sem og þeim ráðningarstofum sem stofnanir fá til að vinna fyrir sig þessi verkefni. Lokið hefur verið við gerð handbókar um ráðningarkerfið og er hún aðgengileg á vef Fjársýslunnar.

Ferðauppgjörskerfið er hluti af mannauðshluta Orra og hefur kerfið nú þegar verið tekið í notkun hjá nokkrum ráðuneytum og stofnunum og er tilbúið til uppsetningar og notkunar fyrir aðrar ríkisstofnanir. Ferðauppgjör er sjálfstæður kerfishluti sem heldur utan um ferðir á vegum stofnana, ferðabeiðnir, gerð ferðareikninga, uppáskrift beiðna og reikninga og upplýsingar um ferðamann. Hlutverk Ferðauppgjörskerfis er að halda utan um heildarferlið við ferðabeiðnir og reikninga, öll skjöl tengd ferð og skila síðan uppgjöri á kostnaði til fjárhagshluta Orra. Kerfið er aðgengilegt í gegnum sjálfsafgreiðslu Orra. Ferðauppgjörskerfið býður upp á hagræðingu við ferðauppgjör þar sem samþykktarferlið er rafrænt og ferðakostnaður bókfærist sjálfkrafa.

Samkvæmt framkvæmdaráætlun starfshóps um innleiðingu mannauðshluta Orra er áætlað að 5 ríkisstofnanir innleiði Vinnustund fyrir júnílok og á haustmánuðum er gert ráð fyrir að allt að 15 stofnanir innleiði Vinnustund. Þess má geta að í dag eru rúmlega 60 stofnanir að nota Vinnustund. Sú leið hefur verið valin að starfsfólk Fjársýslunnar sér um forgangsröðun stofnana í innleiðingu og aðstoð við innleiðingu. Hefur þessi leið verið valin til að minnka verulega kostnað ríkistofnana við innleiðingu Vinnustundar.

Stofnanir sem hafa áhuga á að kynna sér eða innleiða ráðningarkerfið, Vinnustund eða Ferðauppgjörskrefið eru vinsamlegast beðnar um að hafa samband við Ólaf Jón Ingólfsson sérfræðing Fjársýslunnar í síma 545 7693 eða með því að senda honum tölvupóst á netfangið [email protected].

Ný útgáfa sjálfsafgreiðslu starfsmanna hefur verið tekin í notkun á Landspítalanum. Á næstu mánuðum mun verða farið í að skoða þennan kerfishluta mannauðskerfisins nánar með það að leiðarljósi að opna fyrir notkun hans fyrir fleiri ríkisstarfsmenn. Í sjálfsafgreiðslu geta starfsmenn og stjórnendur skoðað og framkvæmt ótal aðgerðir í gegnum sjálfsafgreiðslu kerfisins.

Starfshópurinn beinir því til ríkisstofnana sem hafa vilja til að vinna að verkefnum er tengjast mannauðshluta Orra að leita til starfshópsins og koma hugmyndum sínum á framfæri. Með þessu komum við í veg fyrir tvíverknað og stofnanir ríkisins komast með þessu móti hjá því að taka á sig kostnað vegna útfærslna sem hugsanlega yrðu leystar miðlægt fyrir allt kerfið.

Tengiliður hópsins er Helga Jóhannesdóttir, sem einnig veitir nánari upplýsingar. Netfang hennar er [email protected].

_______________

Kyn og meðalaldur forstöðumanna ríkisstofnana

Öðru hvoru hefur verið birt „kynjabókhald“ forstöðumanna, síðast í febrúar 2008. Síðan þá hafa nokkrar breytingar orðið á hópnum og fylgir hér yfirlit yfir kyn og meðalaldur forstöðumanna í upphafi árs 2009. Eins og áður eru stofnanir utan framkvæmdavaldsins undanskildar þ.e. Alþingi, stofnanir þess sem og dómstólarnir.

Taflan hér fyrir neðan sýnir fjölda og kynjaskiptingu forstöðumanna ríkisstofnana í janúar 2008 og janúar 2009. Eins og sjá má eru konur 29% forstöðumanna stofnana nú, en hlutfallið var 25% í fyrra. Fjöldi forstöðumanna helst óbreyttur milli ára, en í einu tilviki deila karl og kona einni stöðu forstöðumanns í afleysingum.

Ráðuneyti Fjöldi karla 2009 Fjöldi kvenna 2009 Hlutfall kvenna 2009 Fjöldi karla 2008 Fjöldi kvenna 2008 Hlutfall kvenna 2008
Forsætisráðuneyti 3 3 50% 3 3 50%
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti 26 9 26% 27 8 23%
Félags- og tryggingamálaráðuneyti* 9 8 47% 8 7 47%
Fjármálaráðuneyti 17 3 15% 17 3 15%
Heilbrigðisráðuneyti 21 10 32% 24 8 25%
Iðnaðarráðuneyti 4 1 20% 5 1 17%
Menntamálaráðuneyti 33 19 37% 36 17 32%
Samgönguráðuneyti 8 1 11% 9 1 10%
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 7 1 13% 9 0 0%
Umhverfisráðuneyti 13 2 7% 11 1 8%
Utanríkisráðuneyti 2 1 33% 3 0 33%
Viðskiptaráðuneyti 5 2 29% 5 2 29%
Samtals 148 59 29% 157 51 25%
*tveir forstöðumenn, einn af hvoru kyni, deildu einni stöðu forstöðumanns í afleysingum.

Meðalaldur forstöðumanna er nokkru hærri en meðalaldur ríkisstarfsmanna í heild. Forstöðumenn eru 54,5 ára að meðaltali, konur 49,6 ára og karlar 56,4 ára. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru kynjahlutföllin mjög breytileg innan aldurshópa. Þannig eru konur í nokkrum meirihluta forstöðumanna undir fimmtugu, eða 30 á móti 18 körlum. Aftur á móti eru 29 konur meðal þeirra 159 forstöðumanna sem eru 50 ára eða eldri.

Kynjaskipting forstöðumanna eftir aldurshópum

Að lokum er athyglisvert að líta til þess hve stórt hlutfall ríkisstarfsmanna starfar hjá stofnunum þar sem kona er forstöðumaður, en hlutfallið er nokkuð jafnt. Eins og sést á myndinni er kona æðsti yfirmaður (forstöðumaður) um 46% ríkisstarfsmanna, þrátt fyrir að þær séu aðeins tæp 30% forstöðumanna. Skýrist það einkum af af því að forstöðumenn tveggja stærstu ríkisstofnananna, Landspítala og Háskóla Íslands, eru konur.

Ríkisstarfsmenn eftir kyni og æðsta yfirmanns

_______________

Hefur aukin dreifstýring aukið launamun kynjanna?

Það er yfirlýst markmið ríkisins að draga úr þeim mun á launum karla og kvenna sem ekki verður skýrður nema á grundvelli kyns. Í kjarasamningum aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) árið 2005 var bókun þess efnis að á samningstímanum yrði gerð úttekt á áhrifum launakerfisins á launamun karla og kvenna. Til að uppfylla þessa bókun var Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, fengin til að rannsaka launamun kynjanna innan BHM og skilaði hún skýrslu í desember 2008.

Í rannsókninni var byggt á gögnum úr launakerfi ríkisins og notast við staðlaða aðferðafræði. Rannsóknin náði yfir tvö tímabil; árin 1994-1997 annars vegar og 2001-2007 hins vegar. Frá árinu 1997 hafa kjarasamningar ríkisins og aðildarfélaga BHM verið með þeim hætti að í miðlægum samningum er einungis samið um prósentuhækkun en síðan er það á ábyrgð samstarfsnefndar á hverri stofnun fyrir sig að semja um röðun í launatöflu. Katrín kemst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir aukna dreifstýringu hafi launamunur kynjanna meðal félagsmanna BHM dregist saman. Á árunum 1994-1997 hefðu heildarlaun kvenna þurft að hækka um 33,2% til að jafnast á við heildarlaun karla en þessi munur var kominn niður í 17,3 á árunum 2005-2007. Reyndar eru niðurstöður rannóknarinnar nokkuð misvísandi því sé miðað við gagnasafnið í heild mætti ætla að kynjamunur dagvinnulauna hafi farið vaxandi síðustu ár en þegar starfsmönnum heilbrigðisstofnana er sleppt er kynjamunurinn hverfandi, eða 1-2%. Skýringin á þessu er að á árunum sem rannsóknin tók til hafa orðið nokkrar breytingar á gagnasafninu og heilbrigðisstofnanir sem áður voru utan launakerfisins hafa bæst þar inn.

Í niðurstöðukafla rannsóknarinnar segir að laun kvenna séu lægri en laun karla og eigi það bæði við um dagvinnulaun sem og heildarlaun. Þó verði að hafa það í huga að í rannsóknina vanti mikilvægar upplýsingar sem gætu skýrt launamuninn, s.s. upplýsingar um framhaldsmenntun en samkvæmt langflestum stofnanasamningum raðast þeir sem eru með meistara- og doktorsgráður í hærri launaflokk en þeir sem aðeins hafa lokið 3-4 ára grunnnámi. Niðurstöður rannsóknarinnar má lesa í heild sinni hér (PDF 144 KB).

_______________

Könnun meðal forstöðumanna um stjórn starfsmannamála, jafnrétti og launamun

Þar sem stjórnun starfsmannamála hjá ríkinu er að langmestu leyti í höndum forstöðumanna er ljóst að þeir munu gegna lykilhlutverki í öllum aðgerðum til að minnka launamun kynjanna. Starfshópur fjármálaráðherra um launamun á opinberum markaði sem starfaði í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar leitaði því liðsinnis forstöðumanna áður en tillögur um aðgerðir til að draga úr kynbundnum launamun voru mótaðar. Lögð var fyrir forstöðumenn könnun þar sem meðal annars var spurt hvað þeir teldu að útskýrði kynbundinn launamun.

Meiri ábyrgð kvenna á barnauppeldi og heimilisstörfum og kynskipt náms- og starfsval var helst talið skýra launamun kynjanna á Íslandi en þegar spurt var um launamun hjá ríkinu töldu 65% forstöðumanna að hann mætti rekja til ákvörðunar annarra launa en dagvinnulauna. Þrátt fyrir þessa afgerandi afstöðu var enginn sem nefndi að sérstaklega þurfi að horfa til annarra launa þegar forstöðumenn voru spurðir hvernig þeir gætu best tryggt launajafnrétti. Nokkur munur var á afstöðu karla og kvenna í hópi forstöðumanna hvað varðar leiðir til að minnka launamun kynjanna því konur hafa meiri trú á að starfsmat og jafnlaunavottun stuðli að launajafnrétti en karlar. Fjórir af hverjum fimm forstöðumönnum líta á stofnanasamninga og starfsmannasamtöl sem tæki til að tryggja jafnrétti kynjanna og u.þ.b. helmingur forstöðumanna segist reglulega skoða launamál á sinni stofnun með tilliti til kynbundins launamunar. Heildarniðurstöður könnunarinnar má nálgast hér (PDF 116 KB).

_______________

Diplóma í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í opinberum rekstri

Þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku stjórnkerfi hafa aukið kröfur til ríkisins, bæði hvað varðar vandaða málsmeðferð og bætta þjónustu, en jafnframt er krafist hagkvæmari rekstrar og skilvirkni. Af því leiðir að fagþekking stjórnenda ein og sér er ekki lengur nægileg til að ná árangri þar sem verulega aukin áhersla er á að stjórnendur búi yfir þekkingu og/eða reynslu í stjórnun.

Innan fjármálaráðuneytisins hefur lengi verið áhugi á að efla og auka möguleika stjórnenda á fræðslu um stjórnun sem tekur fullt tillit til þess regluverks sem opinberir stjórnendur starfa innan. Starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur í samstarfi við Háskóla Íslands, Stjórnmálafræðideild, Stofnun Stjórnsýslufræða og stjórnmála, Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag forstöðumanna ríkisstofnana komið á laggirnar 30 eininga námi á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í opinberum rekstri. Markmið námsins er að auka hæfni núverandi stjórnenda í opinberum rekstri til að takast á við stjórnunarverkefni sín, opna möguleika á tilfærslu stjórnenda hjá ríki og sveitarfélögum og gefa þeim sem hyggja á störf á þessum vettvangi kost á viðeigandi námi.

Gert er ráð fyrir að námið sé í flestum tilvikum stundað samhliða starfi og er tekið sérstaklega mið af því við skipulag þess. Námið hefst haustið 2009 og má hér finna nánari upplýsingar um skipulag þess (PDF 5,11 MB).

_______________

Dómar sem fallið hafa á árinu 2008 og varða starfsmannamál

Á árinu 2008 voru kveðnir upp 23 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess. Þar af eru 20 dómar frá héraðsdómi, 2 dómar frá Hæstarétti og 1 dómur frá Félagsdómi.

Hægt er að nálgast yfirlit yfir nefnda dóma frá árinu 2008 á vefsíðu fjármálaráðuneytisins. Þar er að finna stuttar reifanir á dómsmálunum auk atriðisorða sem eiga að vera lýsandi fyrir ágreining aðila.

_______________

Nýtt á vef fjármálaráðuneytisins

Eins og lesendum fréttabréfsins er kunnugt þá er starfsmannaskrifstofan með sérstakt vefsvæði á vef fjármálaráðuneytisins sem nefnist ríkisstarfsmenn. Inn á því vefsvæði eru ýmsar upplýsingar um kjaramál svo og margvísleg mál sem varða starfsmenn ríkisins.

Við viljum benda á að nú hefur verið bætt inn á Spurt og svarað upplýsingum um hvernig starfsmenn ávinna sér rétt til töku á bakvaktarfríi, helgidagafríi svo og í hvenær heimilt er að fresta orlofi milli ára.

_______________

Frá félagi forstöðumanna ríkisstofnana

Ár óvissu

Árið 2009 má ef til vill nefna ár óvissunnar og kemur þar margt til svo sem breytingar á efnahagslegri stöðu lands og þjóðar, einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífsins og hins opinbera. Staða efnahagsmála í heiminum er einnig tilefni til óvissu en framvinda alþjóðlegrar þróunar efnahagsmála hefur mikil áhrif á efnahag okkar. Í stjórnmálunum hér á landi hefur einnig ríkt óvissa. Ríkisstjórn með mikinn meirihluta þingmanna fór frá völdum og við tók minnihlutastjórn. Í kjölfarið fylgdu kosningar til Alþingis 25. apríl síðastliðinn þar sem ríkisstjórnarflokkarnir fengu meirihluta þingmanna og ráða þegar þetta er ritað ráðum sínum um áframhaldandi samstarf.

Í kosningabaráttunni kom vel fram að við ramman reip verður að draga varðandi fjárhag ríkissjóðs og í opinberum rekstri á næstunni og að fjárlagagerðin næstu árin verður erfið. Niðurskurðurinn sem ráðist er í á yfirstandandi ári er væntanlega aðeins fyrsta skrefið í frekari niðurskurði og aðhaldi útgjalda næstu árin þar á eftir. Sá samdráttur í fjárveitingum til ríkisstofnana mun reyna með breyttum hætti á starfsemi margra ríkisstofnana, stjórnendur þeirra og starfsmenn.

Fyrir síðustu áramót ritaði stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana fjármálaráðuneytinu bréf þar sem óskað var eftir því að aðilar settu á fót samstarfsvettvang þessara aðila skipuðum fulltrúum beggja aðila. Hlutverk hópsins verði að fjalla um stöðu, þróun og umbætur í þeim rekstrarmálefnum ríkisins sem undir fjármálaráðuneytið heyra og varða allar ríkisstofnanir. Undirbúningur að þessu samstarfi var kominn áleiðis er þáverandi ríkisstjórnin fór frá völdum. Nú að loknum kosningum er tímabært er að taka þetta mál upp að nýju. Forstöðumönnum er ljóst að við mikinn vanda er að etja og eru tilbúnir að takast á við hann í samstarfi aðila.

Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana 11. maí

Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana verður haldinn að Grand Hótel Reykjavík, mánudaginn 11. maí 2009 kl. 09:00. Að þessu sinni er fundurinn tvískiptur. Annars vegar er, í upphafi nýs kjörtímabils og í ljósi óvenjulegs þjóðfélags- og efnahagsástands, litið til næstu fjögurra ára og fjalla utanaðkomandi framsögumenn um tiltekna þætti er skipta forstöðumenn miklu varðandi hvers er að vænta næstu fjögur árin. Hins vegar eru aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins.

Undir dagskrárliðnum „Næstu fjögur ár – hvers er að vænta?“ fjallar dr. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands um „Ný ríkisstjórn – stjórnmálaástandið framundan“, Bryndís Hlöðversdóttir, dósent, forseti lagadeildar og aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst fjallar um „Stjórnskipun Íslands – er breytinga að vænta?“, dr. Gylfi Zoëga, prófessor, deildarforseti hagfræðideildar félagsvísindasviðs Háskóla Íslands fjallar um „Þróun efnahagsmála heima og heiman“ og Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur og settur ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis fjallar um „Ríkisfjármálin og starfsumhverfi stofnana“.

Haukur Ingibergsson
Formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta