Samkomulag milli Norðurlandanna um gagnkvæman, frjálsan aðgang að opinberum háskólum
Á Sumardaginn fyrsta undirrituðu menntamálaráðherrar Norðurlandanna á fundi sínum í Bláa lóninu samkomulag um framlengingu til þriggja ára á samningi frá 1996 um gagnkvæman, frjálsan aðgang opinberum háskólum í löndunum.
Samkomulagið gildir um alla þegna landanna fimm og sjálfstjórnarsvæðanna, Grænlands, Færeyja og Álandseyja. Samningurinn fjallar um greiðslur fyrir hvern nemanda þessara sem fer á milli landa og myndast greiðsluskylda milli milli stærri ríkjanna fjögurra vegna hinna opinberu framlaga til háskólanna. Hins vegar njóta Ísland og sjálfstjórnarsvæðin gjaldfrjáls aðgangs fyrir þegna sína. Íslendingar hafa notið þess í ríkum mæli í langan tíma og eru um 1200 Íslendingar við nám í Danmörku um þessar mundir.
Samkomulagið snýst um opinberu framlögin til háskólanna en varðar ekki skólagjöld eða innritunargjöld sem hver háskóli kann að ákveða við inntöku nemenda.
Á myndinni eru frá vinstri: Bengt Östberg, aðstoðarráðherra menntamála í Svíþjóð, Eivind Heder Skrifstofustjóri í norsk menntamálaráðuneytinu, Katrín Jakobsdóttir menntmálaráðherra, Henna Virkunen menntamálaráðherra í Finnlandi og Bertil Haarder menntamálaráðherra Danmerkur.