Mentor hlaut Vaxtarsprotann
Fyrirtækið Mentor ehf. hlaut í morgun „Vaxtarsprotann 2009“ sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Þetta er annað árið í röð sem fyrirtækið vex hraðast íslenskra sprotafyrirtækja. Mentor jók veltu sína milli áranna 2007 og 2008 um næstum 160%. Fyrirtækin Naust Marine, Gogogic og Saga Medica fengu einnig viðurkenningu fyrir góðan vöxt á síðasta ári.
Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn með veitingu hans er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.
Það var Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sem veitti Vilborgu Einarsdóttur stjórnarformanni og stofnanda Mentor ásamt stjórn og öðrum starfmönnum fyrirtækisins Vaxtarsprotann 2009 að viðstöddum fulltrúum sprotafyrirtækja og stuðningsaðilum atvinnulífsins í Grasagarðinum Laugardal við hátíðlega athöfn í morgun.
Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2007 og 2008, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í „2. deild“, þ.e. flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir hlutu fyrirtækin Gogogic ehf. og Saga Medica ehf. viðurkenningu en í „1. deild“, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Mentor ehf og Naust Marine hf. viðurkenningu.
Við sama tilefni var fyrirtækið Nimblegen Systems – útibú á Íslandi brautskráð sem sprotafyrirtæki og tekið inn í úrvalsdeild íslenskra hátækifyrirtækja. Sigríður Valgeirsdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækisins tók við sérstakri viðurkenningu úr hendi Jóns Steindórs Valdimarssonar, framkvæmdastjóra SI í þessum sambandi. Þetta er gert innan Samtaka iðnaðarins þegar sprotafyrirtæki hafa náð þeim áfanga að velta meiru en milljarði króna á ári. Síðasta fyrirtækið sem náði þessum áfanga var CCP árið 2006.
Samtök sprotafyrirtækja/Samtök iðnaðarins veitu einnig iðnaðarráðherra sérstaka viðurkenningu fyrir vel unnin störf og stuðning við umbætur í starfsumhverfi íslenskra sprotafyrirtækja á undanförnum árum