Nýtt varðskip Íslendinga sjósett í Chile og gefið nafnið Þór
Nýtt fjölnota varðskip Íslendinga var sjósett í gær í ASMAR, skipasmíðastöð sjóhersins í Chile, við hátíðlega athöfn. Var skipinu, sem afhent verður á fyrri hluta næsta árs, um leið gefið nafnið Þór. Skipið er fullkomnasta varðskip sinnar tegundar á Norður-Atlantshafi. Mun það gjörbreyta möguleikum í björgun og aðstoð við skip á hinu víðfeðma hafsvæði sem Ísland ber ábyrgð á jafnt innan sem utan efnahagslögsögunnar.
Mikil fjölmenni frá chileanska sjóhernum og skipasmíðastöðinni var viðstatt athöfnina sem var hin glæsilegasta. Þórunn J. Hafstein, staðgengill ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, gaf varðskipinu nafnið Þór. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, flutti hátíðarræðu við athöfnina en auk hans fluttu ræður þeir Cristian Gantes, aðmíráll hjá chileanska flotanum, og Andres Fonzo, aðmíráll og framkvæmdastjóri skipasmíðastöðvarinnar.
Skip Landhelgisgæslunnar hafa áður borið nafnið Þór. Fyrsta björgunarskipið sem kom til landsins bar nafnið Þór en það var upphaflega keypt af Björgunarfélagi Vestmannaeyja þann 26. mars árið 1920 til björgunarstarfa við Vestmannaeyjar. Skipið varð síðar, eða árið 1926, upphafið að stofnun Landhelgisgæslunnar. Varðskip í þjónustu Landhelgisgæslunnar hafa borið þetta nafn frá þessum tíma og allt til ársins 1986.
Sjá nánar á vef Landhelgisgæslu Íslands.
„Ég nefni þig Þór“. Þórunn J. Hafstein gefur varðskipinu nafn.
Mikið fjölmenni frá chileanska sjóhernum og skipasmíðastöðinni var við athöfnina.
Varðskipið Þór að lokinni sjósetningu.