Drög að breyttri reglugerð um ökuskírteini
Með breytingu á reglugerð um ökuskírteini nr. 501/1997 sem gerð var á árinu 2007 var gert ráð fyrir að hluti ökunáms færi fram í ökugerði frá og með 1. janúar 2010. Þó svo að flestir séu sammála um gildi slíkrar þjálfunar hafa áform um uppbyggingu dregist og reynst torveldari einkum vegna mikils kostnaðar sem það hefur í för með sér.
Annar valkostur til að bæta þjálfun ökumanna er að hún fari að hluta fram í skrikbíl (skidcar) en slíkt fyrirkomulag er mun ódýrara í framkvæmd en fullbúið ökugerði. Því er nú lagt til að 26. gr. reglugerðar um ökuskírteini verði breytt þannig að verkleg þjálfun ökunema geti jafnt farið fram í ökugerði eða með skrikbíl.
Af þessu tilefni fer ráðuneytið þess á leit að hagsmunaaðilar tjái sig um framkomna breytingu á verklegri þjálfun ökunema eins og lagt er til í reglugerðardrögunum.
Í hjálögðum drögum er (2. gr.) er kveðið svo á að ekki megi nota bifreið með sjálfskiptingu við verklegt ökupróf vissra ökutækja. Þetta hefur fyrst og fremst áhrif á viss ökutæki sem notuð eru í prófum til aukinna ökuréttinda, en engin til A og B réttinda. Ákvæði þetta byggist á á tilskipun 2008/65/EB og er breyting á ökuskírteinatilskipun ESB sem reglugerð um ökuskírteini byggist að verulegu leyti á.
Í VII. viðauka núgildandi reglugerðar um ökuskírteini er fjallað um skilyrði og takmarkanir er varða ökuskírteini. Í 3. tl. VII. viðauka eru innlendar tákntölur og þar tilgreindir ökuréttindaflokkar sem einungis gilda á Íslandi. Samkvæmt 3. gr. draganna er bætt við átta flokkum vegna flutnings á hættulegum farmi innanlands.
Þeir sem koma vilja á framfæri ábendingum og umsögnum um frumvarpið eru beðnir að gera það í síðasta lagi á hádegi föstudaginn 8. maí næstkomandi og senda á netfangið [email protected].