Hoppa yfir valmynd
6. maí 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skýrsla menntamálaráðherra um skólahald í grunnskólum

Nýlega lagði menntamálaráðherra fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd skólahalds í grunnskólum

Nýlega lagði menntamálaráðherra fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd skólahalds í grunnskólum en samkvæmt 4. grein laga nr. 91/2008 um grunnskóla skal menntamálaráðherra á þriggja ára fresti gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólahalds í grunnskólum landsins.

Skýrslan tekur til skólaáranna 2004-2005, 2005-2006 og 2006-2007 og skiptist í níu kafla. Í skýrslunni er að finna margvíslegar upplýsingar í texta, töflum og myndum um skólahald í grunnskólum á fyrrgreindum skólaárum, s.s. um fjölda skóla, nemenda, kennara og annars starfsfólks, fjölda kennslustunda og skóladaga, útgáfu námsgagna, úttektir og kannanir, árangur á samræmdum prófum og þátttöku í erlendum samanburðarrannsóknum, styrki og þróunarverkefni og útgjöld til grunnskóla.

  • Í fyrsta kafla skýrslunnar er gerð grein fyrir fjölda grunnskóla, þ.m.t. sérskóla og sjálfstætt starfandi skóla.
  • Annar kafli fjallar um nemendur, s.s. nemendur með annað móðumál en íslensku, tungumálanám, fjölda skóladaga og viðmiðunarstundaskrá.
  • Þriðji kafli fjallar um starfsfólk grunnskóla. Í kaflanum er m.a. að finna upplýsingar um fjölda og hlutfall réttindakennara og leiðbeinenda, aldur og kyn kennara og skólastjórnenda, fjölda brautskráðra kennara og útgefin leyfisbréf.
  • Fjórði kafli er um námsgögn.
  • Í fimmta kafla er að finna upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa í grunnskólum, kannanir og úttektir á skólum og ýmsum þáttum skólastarfs. Einnig er í kaflanum gerð grein fyrir helstu niðurstöðum PISA og alþjóðlegu lestrarrannsókninni PIRLS frá 2006.
  • Sjötti kafli er um styrkveitingar úr Þróunarsjóði grunnskóla og Endurmenntunarsjóði grunnskóla.
  • Í sjöunda kafla er að finna upplýsingar um fjárveitingar til grunnskólastigsins, m.a. kostnað á nemanda, launakostnað og útgjöld ríkis og sveitarfélaga.
  • Í áttunda kafla er gerð grein fyrir endurskoðun laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla.
  • Níundi kafli fjallar um ýmis verkefni á vegum menntamálaráðuneytis eins og nýsköpunarkeppni grunnskóla, Olweusaráætlunina gegn einelti, UT ráðstefnur og grunnskólalagagþingi 2006.

Upplýsingar í skýrslunni byggja að mestu á upplýsingaöflun menntamálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa í 4., 7. og 10. bekk eru fengnar frá Námsmatsstofnun og upplýsingar um námsgögn frá Námsgagnastofnun.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta