Hoppa yfir valmynd
8. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Reglugerðir um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við húsnæði

Fréttatilkynning nr. 27/2009

Fjármálaráðuneytið hefur í dag gefið út tvær reglugerðir um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði o.fl. Annars vegar er um að ræða reglugerð um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við tiltekið húsnæði. Sú reglugerð er sett með vísan til laga sem samþykkt voru á Alþingi í byrjun mars um að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði skuli nema 100% í stað 60% af vinnu sem fram fer á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2011. Samkvæmt lögunum nær þessi heimild jafnframt til vinnu við frístundahúsnæði og húsnæði í eigu sveitarfélaga. Markmiðið með breytingunum er að hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði samhliða því að koma til móts við húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga. Með reglugerðinni er kveðið nánar á um framkvæmd endurgreiðslunnar, m.a. með nánari afmörkun á frístundahúsnæði og húsnæði sem er alfarið í eigu sveitarfélaga, en undir það síðarnefnda fellur t.d. skrifstofuhúsnæði, íþróttahús, áhaldahús o.fl. Þrátt fyrir tafir á útgáfu reglugerðarinnar er endurgreiðsla virðisaukaskatt á grundvelli lagabreytingarinnar sem tók gildi 1. mars þegar hafin og er nú þegar komin fram merkjanleg aukning í umræddum endurgreiðslubeiðnum hjá skattstjórum.

Hins vegar eru breytingar á reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, en þar er m.a. mælt fyrir um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum húseiningum til viðbótar við verksmiðjuframleidd íbúðarhús. Sú þróun hefur átt sér stað á undanförnum árum að bygging íbúðarhúsnæðis fer í auknum mæli fram annars staðar en á eiginlegum byggingarstað og er breytingin gerð til þess að koma á jafnræði milli byggingaraðferða.

 

Fjármálaráðuneytinu, 8. maí 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta