Utanríkisráðherra mótmælir ummælum Brown
Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, bar í dag fram formleg mótmæli vegna ummæla Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands í fyrirspurnatíma breska þingsins. Kallaði utanríkisráðherra staðgengil sendiherra Bretlands á Íslandi á sinn fund auk þess sem sendiherra Íslands í Bretlandi bar fram mótmæli við skrifstofu breska forsætisráðherrans.
Össur Skarphéðinsson sagði að ummæli breska forsætisráðherrans í gær um fjárhagslegan skaða Christie sjúkrahússins hefðu verið óheppileg. Í fyrirspurnartíma þingsins hélt Brown því fram að bresk stjórnvöld væru ekki eftirlitsaðili í máli Kaupþing, Singer og Friedlander bankans þar sem innistæður Christie sjúkrahússins voru geymdar. Þá hélt Brown því fram að bresk yfirvöld ættu í samningaviðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hversu hratt Íslendingar endurgreiddu lán vegna greiðslna til breskra innistæðueigenda.
Utanríkisráðherra lagði áherslu á að Kaupþing, Singer and Friedlander væri breskur banki og heyrði því undir breska fjármálaeftirlitið. “Við hörmum það að Christie sjúkrahúsið hafi beðið fjárhagstjón vegna yfirtöku breska fjármálaeftirlitsins á Kaupþing, Singer and Friedlander bankanum en það tengist á engan hátt endurgreiðslum til innistæðueigenda í íslenskum bönkum,” sagði ráðherra.
Össur lagði ennfremur áherslu á að yfirlýsing Browns um að Bretar og AGS ættu í samningaviðræðum vegna lána Íslands vektu áhyggjur þar sem slíkt væri ekki í samræmi við lög og reglugerðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.