100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar gerð opinber
Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrimur J. Sigfússon fjármálaráðherra, kynntu á blaðamannafundi í dag þau áform sem ríkisstjórnin hefur uppi og hyggst ljúka á næstu 100 dögum. Listinn er fjölbreyttur og tekur til margra málaflokka meðal annars er varða ríkisfjármálin og bankamálin en einnig mál er varða hag heimila og fyrirtækja.
Listann í heild má finna hér:
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs
100 daga áætlun – áformaðar aðgerðir
- Forsendur fjárlaga 2010 og áætlun í ríkisfjármálum til millilangs tíma afgreidd í ríkisstjórn.
- Skýrsla vegna áætlunar í ríkisfjármálum 2009 og áætlun til millilangs tíma lögð fram á Alþingi.
- Ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna tekin í ríkisstjórn.
- Endurmat á aðgerðaráætlun vegna skuldavanda heimilanna.
- Átak í kynningu og efldri þjónustu vegna greiðsluvandaúrræða fyrir heimili í skuldavanda.
- Þingsályktunartillaga vegna umsóknar Íslands um ESB lögð fram á Alþingi.
- Endurskoðun hafin á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
- Frumvarp um handfæraveiðar smábáta yfir sumartímann lagt fram á Alþingi.
- Lokið skal mikilvægum samningum til lausnar vegna erlendra eigenda krónubréfa.
- Lokavinna við samninga um erlendar kröfur – Icesave.
- Lokavinna við samninga um erlend lán við vinaþjóðir.
- Ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála.
- Frumvarp lagt fram á Alþingi um aðgerðir gegn skattundanskotum.
- Fyrsta úttekt AGS vegna efnahagsáætlunarinnar afgreidd í stjórn AGS.
- Ákvörðun tekin um framtíðareignarhald nýju bankanna og mögulegt erlent eignarhald.
- Samkomulag milli nýju bankanna og erlendra kröfuhafa gömlu bankanna afgreitt.
- Dregið úr gjaldeyrishöftum.
- Frumvarp um persónukjör lagt fram á Alþingi.
- Frumvarp lagt fram á Alþingi um ráðgefandi stjórnlagaþing sem kosið verði til samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010.
- Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur lagt fram á Alþingi.
- Endurskoðun á reglum um fjármál stjórnmálaflokka hafin.
- Endurskoðun hafin á upplýsingalögum í því augnamiði að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum stjórnarráðsins.
- Frumvarp um eignaumsýslufélag lagt fram á Alþingi.
- Frumvarp um breytingu á lögum um sparisjóði lagt fram á Alþingi.
- Gripið til viðeigandi aðgerða til að lækka hæstu laun hjá ríkinu og félögum á þess vegum með það að leiðarljósi að enginn verði með hærri laun en forsætisráðherra.
- Frumvarp um breytingar á Stjórnarráði Íslands lagt fram á Alþingi.
- Frumvarp lagt fram á Alþingi um að breyta lögum um LÍN þannig að ekki verði lengur krafist ábyrgðarmanna.
- Nýjar reglur um nefndarþóknanir, risnu og ferðakostnað samþykktar af ríkisstjórn.
- Ný yfirstjórn ráðin í Seðlabanka Íslands.
- Lokið við efnahagsreikninga nýju bankanna og þeir endurfjármagnaðir.
- Lokið við endurfjármögnun og –skipulagningu sparisjóða sem óskað hafa eftir stofnfjárframlagi frá ríkinu.
- Samráðsvettvangur ríkisstjórnar, sveitarfélaga, landbúnaðarins og aðila vinnumarkaðarins settur á fót.
- Byrjað verði að móta atvinnustefnu í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og háskólasamfélagsins. Meðal markmiða sé að Ísland verði meðal 10 samkeppnishæfustu landa heims árið 2020.
- Viðræður hafnar við lífeyrissjóði og innlenda fjárfesta um að koma að eflingu atvinnulífs með hinu opinbera.
- Tillögur að nýju almannatryggingakerfi lagðar fyrir ríkisstjórn.
- Nýjar útlánareglur afgreiddar hjá LÍN.
- Hafin vinna við mótun heildstæðrar orkustefnu. Stefnan miði m.a. að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi.
- Sett á fót tekjustofnanefnd sem hafi það hlutverk að vinna tillögu um breikkun og styrkingu tekjustofna sveitarfélaga.
- Náttúruverndaráætlun til ársins 2013 lögð fram á Alþingi.
- Ráðgefandi hópur útgerðarmanna og sjómanna um veiðiráðgjöf og nýtingu sjávarauðlinda og ástands lífríkis sjávar skipaður.
- Vinna hafin við mótun sóknaráætlana fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar.
- Vinna hafin við mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.
- Efld úrræði Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar til að bregðast við atvinnuleysi.
- Frumvarp um bætt umhverfi sprota og nýsköpunarfyrirtækja lagt fram á Alþingi.
- Átak til að fjölga sumarstörfum og nýjum atvinnutækifærum fyrir ungt fólk.
- Sparnaðarátak í ríkiskerfinu með þátttöku starfsmanna, stjórnenda og notenda þjónustunnar sett í gang.
- Vinna hafin við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélags- og efnahagsmálum þjóðarinnar og framtíðarvalkosti.
- Stöður bankastjóra ríkisbankanna auglýstar lausar til umsóknar.