Ný ríkisstjórn tekur við - kennir sig við norræna velferð í bestu merkingu þeirra orða
Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið mynduð. Forystumenn stjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fjármálaráðherra, kynntu stefnumið stjórnarinnar á blaðamannafundi sem haldin var í Norræna húsinu í dag. Markmið flokkanna tveggja er að setja á laggirnar norræna velferðarstjórn í bestu merkingu þeirra orða eins og það er orðað í stjórnarsáttmála flokkanna.
Nýja ríkisstjórnin leggur fram metnaðarfulla stefnuskrá til næstu ára, þar sem meginmarkmiðið er að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Ríkisstjórnin mun fylgja aðhaldssamri stefnu í peninga- og ríkisfjármálum, hún ítrekar stuðning sinn við efnahagsáætlunin stjórnvalda í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þau markmið sem þar eru sett. Samhliða þeim aðgerðum sem við blasa í kjölfar bankahrunsins hyggst ríkisstjórnin blása til sóknar til framtíðar í þágu þjóðarinar á mörgum sviðum, m.a. í atvinnumálum og nýsköpun með það að leiðarljósi að Ísland verði meðal samkeppnishæfustu þjóða veraldar um 2020.
Skuldastaða heimila – velferðin varin
Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að verja heimilin í landinu og velferðina sömuleiðis. Það verður gert með því að fylgjast grannt með skuldastöðu almennings og grípa til ráðstafana eftir því sem við á. Ráðgjafastofa heimilanna verður efld og ráðist í að kynna betur þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til. Ríkisstjórnin mun í allri vinnu sinni leitast við að verja velferðarkerfið eins og framast er kostur.
Atvinnustarfsemin varin
Stór hluti þess að verja heimili og velferðarkerfið er að draga úr atvinnuleysi. Til þess þarf meðal annars að hraða aðgerðum sem varða endurskipulagningu fyrirtækja og aðstoð við þau. Markmið ríkisstjórnarinnar er að allar aðgerðir gagnvart smærri og meðalstórum fyrirtækjum liggi fyrir í síðasta lagi í lok september. Frumvarp um eignaumsýslufélag verður lagt fram á vorþingi. Jafnframt er af hálfu ríkisstjórnarinnar lögð áhersla á vaxtalækkun, lækkandi verðbólgu og afnám gengishafta sem lið í því að búa fyrirtækjum umhverfi sem þeim er hagfellt.
Evrópumál til þings og þjóðar
Ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála um að rétt sé utanríkisráðherra leggi fram tillögu á Alþingi um að Ísland sækist eftir aðild þegar á vorþingi. Um leið ítreka báðir flokkar þá skoðun sína að þjóðin eigi að leiða málið til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkarnir áskilja sér rétt til að halda fast í sín sjónarmið í þeirri umræðu sem fram fer í kjölfarið innan þings og utan.
Stjórnskipan og stjórnsýsla
Ríkisstjórnin mun halda áfram vinnu við lýðræðislegar umbætur og endurskoðun stjórnsýslunnar, eins og hún boðaði í febrúar. Ráðuneytum verður fækkað úr 12 í 9 á kjörtímabilinu og stofnað verði til stjórnlagaþings sem kosið verði til samhliða sveitarstjórnarkosningunum.
Efnahagsmál - stöðugleikamarkmið
Mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar næstu 100 dagana í efnahagsmálum eru á sviði ríkisfjármála, bankamála og að greiða úr skuldavanda fyrirtækja og heimila. Skapa þarf forsendur fyrir áframhaldandi og hraðri lækkun vaxta og vinna markvisst að því að draga úr höftum í gjaldeyrisviðskiptum. Markmið ríkisstjórnarinnar er að skapa skilyrði til hagvaxtar þegar á næsta ári. Unnið verður að þjóðarsamstöðu um stöðugleikasáttmála og lögð fram áætlun um að jafnvægi verið náð í ríkisfjármálum á næstu árum. Mikilsverður hluti þess er heildarmat á þörfum fyrir frekari aðgerðir í þágu heimila og tillögur unnar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og lífsgæða sem unnin verði fyrir alla landshluta og endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins.
100 daga áætlunin
Ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því að miklu skiptir að unnið sé hratt til að bregðast við þeim vanda sem við þjóðinni blasir. Hún hefur því sett sér markmið sem hún ætlar að ná á næstu 100 dögum sem fela meðal annars í sér að afgreiða forsendur fjárlaga til millilangs tíma, hefja lokavinnu við Icesave – samningana, ná samningum við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála, endurfjármagna bankana og semja við erlenda kröfuhafa þeirra, leggja fram frumvörp um stjórnlagaþing, þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör, ráða nýja yfirstjórn í Seðlabanka Íslands, hefja mótun nýrrar atvinnustefnu og hefja endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins svo nokkur atriði séu nefnd. Áfram verður unnið að verkefnum sem ríkisstjórnin hefur áður kynnt, þar á meðal endurskoðunar peningamálastefnunnar á vegum Seðlabanka Íslands og hann hefur líka það verkefni að fjalla um framtíð verðtryggingarinnar. Jafnframt verður haldið áfram vinnu við endurskipulagningu bankakerfsins og aðrar þær aðgerðir sem verða munu til að efla traust á fjármálakerfinu.
Reykjavík 10. maí 2009
- Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
(vefsíða á stjórnarrad.is) - Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
(á PDF-formi) - 100 daga áætlun – áformaðar aðgerðir
- Nánari upplýsingar á island.is