Hoppa yfir valmynd
12. maí 2009 Forsætisráðuneytið

Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar - fjölmörg mál á dagskrá

Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri-hreyfingarinnar græns framboðs var haldinn á Akureyri 12. maí. Á fundinum lagði forsætisráðherra fram hugmyndir um hvernig háttað verður málsmeðferð stórra mála á Alþingi er varða lýðræðisumbætur; t.d. frumvarps um persónukjör, frumvarps um þjóðaratkvæðagreiðslu og frumvarps um ráðgefandi stjórnlagaþing. Forsætisráðherra kynnti jafnframt áform um vinnslu gagna sem skilgreina eiga stöðu lykilstærða í samfélags- og efnahagsmálum en þessi úttekt er hluti af 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar. Ennfremur fjallaði forsætisráðherra um Sóknaráætlun fyrir Ísland en ríkisstjórnin hyggst efna til viðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar.

Umhverfisráðherra kynnti frumvarp um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur og frumvarp til laga um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni.

Viðskiptaráðherra lagði fram fimm mál; frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn). Í annan stað frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörumerki. Í þriðja lagi frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (einföldun reglna við samruna og skiptingu). Í fjórða lagi kynnti ráðherra frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti og í fimmta lagi frumvarp til laga um vátryggingarstarfsemi.

Fjármálaráðherra lagði fram til endurflutnings frumvarp til laga um eignaumsýslufélag en umfjöllun um það lauk ekki á síðasta þingi. Ennfremur fjallaði fjármálaráherra um Þjóðarbúskapinn 12. maí, vorskýrslu ráðuneytisins um stöðu og horfur í efnahagsmálum.

Reykjavík 12. maí 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta