Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins
Fréttatilkynning nr. 28/2009
Fjármálaráðuneytið birtir í dag nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2009 til 2011 í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn - vorskýrsla 2009.
Fjallað er um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála 2009-2011 á grundvelli nýrrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins auk framreikninga til ársins 2014. Helstu niðurstöður eru þessar:
- Við hrun íslensku bankanna haustið 2008 í alþjóðlegri fjármálakreppu varð grundvallarbreyting á íslensku efnahagslífi. Stór hluti af fjárhagslegum auði landsmanna þurrkaðist út, gengi krónunnar hrapaði, vextir hækkuðu og fjármálastarfsemi fór í uppnám. Sú þróun hefur framkallað djúpan samdrátt í innlendri eftirspurn, aukin gjaldþrot fyrirtækja og fjöldaatvinnuleysi.
- Stjórnvöld hafa brugðist við vandanum með margþættum aðgerðum samkvæmt efnahagsáætlun sem lögð var fram í nóvember 2008 í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Markmiðið er að endurreisa bankakerfið, opna á gjaldeyrismarkaðinn og treysta stoðir opinberra fjármála. Auk þess hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða til að draga úr áhrifum áfallsins á heimili og fyrirtæki sem miðast við að endurheimta jafnvægi, bjartsýni og hagvöxt. Útlit er fyrir að næstu skref efnahagsáætlunarinnar gangi vel fyrir sig og að á komandi misserum taki efnahagslífið smám saman við sér.
- Áætlað er að landsframleiðslan hafi aukist um 0,3% árið 2008 þegar mikill samdráttur varð í innlendri eftirspurn en viðsnúningur í utanríkisviðskiptum vóg upp á móti. Árið 2009 er áætlað að landsframleiðslan dragist saman um 10,6% þegar þjóðarútgjöld lækka um fimmtung en jákvæð breyting á utanríkisviðskiptum vegur upp helming lækkunarinnar. Spáð er að hagvöxtur verði 0,6% árið 2010, þegar fjárfesting í stóriðju vex á meðan aðrir eftirspurnarliðir dragast áfram saman en af minnkandi þunga. Árið 2011 er spáð að hagvöxtur verði um 5% þegar einkaneysla og fjárfesting í öðrum atvinnuvegum taka við sér og fara að aukast á ný.
- Vegna snaraukins halla á þáttatekjujöfnuði í kjölfar bankahrunsins er áætlað að viðskiptahalli hafi verið 34,6% af landsframleiðslu árið 2008. Árið 2009 er reiknað með að hallinn verði 2,0% af landsframleiðslu þegar afgangur verður á vöru- og þjónustujöfnuði, en alþjóðleg verðsamkeppnisstaða íslenskra framleiðenda er með besta móti um þessar mundir. Smávægilegur afgangur verður á viðskiptajöfnuði árið 2010 en 1,1% halli árið 2011.
- Fram eftir árinu 2008 var atvinnuleysi lítið en hefur stóraukist og verður að meðaltali 9,0% af vinnuafli árið 2009 og 9,6% árið 2010 en 7,5% af vinnuafli árið 2011. Mikill framleiðsluslaki í hagkerfinu minnkar þegar fram í sækir.
- Verðbólga jókst mikið þegar líða tók á árið 2008 í kjölfar gengislækkunar krónunnar og nam 12,7% að meðaltali það ár. Eftir að gengi krónunnar styrktist hefur dregið úr verðbólgu og er áætlað að hún nemi 10,2% í ár en minnki hratt og verði 1,6% árið 2010 og 1,9% árið 2011. Gert er ráð fyrir að stýrivextir lækki hratt árið 2009 og verði 11,8% að meðaltali það ár, en 4,3% árið 2010 og 4,8% árið 2011.
- Í lok ársins 2008 tóku tekjur ríkissjóðs að dragast hratt saman og útgjöld að aukast og nam tekjuhalli 1,2% af landsframleiðslu það ár. Árið 2009 mun hallinn aukast mikið og nema 12,6% af landsframleiðslu. Vegna aðgerða stjórnvalda er gert ráð fyrir að hallinn dragist hratt saman á komandi árum og að ríkissjóður verði með tekjuafgang árið 2013. Með niðurgreiðslu skulda verða stoðir ríkissjóðs treystar á komandi árum.
- Í framreikningum fyrir árin 2012-2014 er reiknað með hóflegum hagvexti á tímabilinu, eða um 2,6% á ári að meðaltali; að verðbólga verði lítil og stöðug, eða 2,5%, smávægilegur halli verði á viðskiptajöfnuði, eða 1,5% af landsframleiðslu, og atvinnuleysi verði 4,1% af vinnuafli að meðaltali.
- Óvissuþættir í þjóðhagsspánni eru fjölmargir og miklir og tengjast endurreisn bankakerfisins, afnámi hafta á gjaldeyrismarkaði, gengi krónunnar, fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja, breytingum á alþjóðlegu samstarfi, frekari stóriðjuframkvæmdum og ástandi á vinnumarkaði.
Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9171 eða 862 0017.
Fjármálaráðuneytinu, 12. maí 2009