Hoppa yfir valmynd
12. maí 2009 Forsætisráðuneytið

Sóknaráætlun fyrir alla landshluta

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um svohljóðandi verkefni um gerð sóknaráætlana: “Ríkisstjórnin mun efna til viðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar. Markmiðið er að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og að samþættar verði áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðaáætlanir auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmsa vaxtarsamninga og aðra opinbera stefnumótun og framkvæmdaáætlanir sem ætla má að komi til endurskoðunar í kjölfar efnhagshrunsins.”

Í sóknaráætluninni verður lagt heildstætt mat á styrkleika Íslands og tækifæri og hvernig sækja megi fram, ekki síst á sviði atvinnumála. Með henni næst yfirsýn yfir áætlanir sem heyra undir ólík ráðuneyti auk þess sem greint verður hvernig þær geti spilað saman til að Ísland geti orðið eitt af 10 samkeppnishæfustu ríkjum heims árið 2020. Jafnframt verði gerðar sérstakar sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta fyrir sig til eflingar atvinnulífs og lífsgæða. Þær verða unnar í samráði við íbúa, sveitarfélög, hagsmunaaðila, grasrótarhreyfingar og sérfræðinga.

Samkvæmt 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar er þetta verkefni eitt af forgangsverkefnum hennar. Þar sem samþætting ólíkra áætlana sem heyra undir mismunandi ráðuneyti og stofnanir er flókin skiptir miklu að verkstjórn sé markviss. Lagt er til að fimm manna stýrihópur hafi yfirstjórn með undirbúningi verkefnisins. Hann mun kalla til þá starfsmenn ráðuneyta og forstöðumenn stofnana sem málið varðar til samvinnu og samráðs, auk þess sem leitað verði samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, fulltrúa landshlutasamtaka, sérfræðinga, áhugahópa og hugmyndaríkt fólk.

Svo hugmyndir ríkisstjórnarinnar megi ganga eftir þarf:

Framtíðarsýn og samráð

Mikilvægt er að kalla fram framtíðarsýn fyrir landið í heild, einstaka landshluta og atvinnugreinar til eflingar atvinnulífs, innviða og samfélagslegra þátta, s.s. menntunar, þróunar sveitarfélaga og annarrar opinberrar þjónustu. Það verður best gert með því að opna ferlið almenningi á margvíslegan hátt og í samráði þar sem landinu yrði skipt upp eftir svæðum. Í því verður litið til skiptingar sem horft hefur verið til við undirbúning samgönguáætlunar, byggðaáætlunar, áætlana um eflingu sveitarfélaganna o.fl.

Samþættingu áætlana

Til að verkefnið nái markmiðum sínum þarf að samþætta veigamiklar áætlanir sem eru á mismunandi stigi í stjórnkerfinu. Sumar þeirra þarf að endurmeta í ljósi efnahagshrunsins og verkefnanna framundan s.s. samgönguáætlun og byggðaáætlun. Þá er ekki síður mikilvægt að horfa til áætlana ráðuneyta um þjónustuuppbyggingu, um eflingu sveitarfélaga og flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, svæðisskipulagsáætlana o.s.frv. Því er skynsamlegt að horfa annars vegar fram til ársins 2013 og hins vegar all-langt fram í tímann, til 2020.

Tímaáætlun

Tillaga að verkefnisáætlun liggi fyrir 1. júní nk. Áfangaskil verði á verkefninu um áramót og að gert er ráð fyrir að þær áætlanir sem lagðar verði fram á Alþingi frá og með vetri komanda taki mið af verkefninu.

Reykjavík 12. maí 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta