Hoppa yfir valmynd
14. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 14. maí 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðuneytið birti þann 12. maí sl. nýja skýrslu um stöðu og þróun efnahagsmála fyrir árin 2009 til 2014.

Þar kemur fram að við hrun íslensku bankanna haustið 2008 í alþjóðlegri fjármálakreppu varð grundvallarbreyting á íslensku efnahagslífi. Stór hluti af fjárhagslegum auði landsmanna þurrkaðist út, gengi krónunnar hrapaði, vextir hækkuðu og fjármálastarfsemi fór í uppnám. Þessi atburðarás hefur framkallað djúpan samdrátt í innlendri eftirspurn, aukin gjaldþrot fyrirtækja og fjöldaatvinnuleysi.

Gert er ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 10,6% árið 2009 meðan þjóðarútgjöld dragast saman um fimmtung. Verðbólguþrýstingur hefur minnkað mikið að undanförnu en þrátt fyrir það er talið að meðalverðbólga ársins mælist 10,2%.

Stýrivextir munu lækka hratt fram eftir ári en ársmeðaltal þeirra verður 11,8%. Í skýrslunni er áætlað að atvinnuleysi verði 9,0% af vinnuafli árið 2009 og hefur það aldrei verið jafn mikið. Kaupmáttur ráðstöfunartekna mun dragast mikið saman vegna verðbólgu, lítilla kauphækkana, minna vinnumagns og atvinnuleysis. Einkaneysla dregst saman um fjórðung (24,7%).

Hagvöxtur, þjóðarútgjöld og viðskiptajöfnuður / VLF
Lítils háttar hagvöxtur, eða 0,6%, gæti orðið árið 2010 ef stóriðjufjárfesting sem nú er ráðgerð gengur eftir. Samdráttur í öðrum eftirspurnarliðum heldur þó áfram árið 2010 en af minnkandi þunga. Einkaneysla verður 2,5% minni en 2009. Atvinnuleysi helst áfram hátt og gæti orðið 9,6% árið 2010 en verður þó tekið að minnka seinni hluta ársins. Verðbólga verður með minnsta móti árið 2010 eða um 1,6%. Stýrivextir 2010 verða því lægri en sést hafa lengi eða 4,3%.

Þáttur
Ma.kr. 2008 Magn-breytingar frá fyrra ári, %, brb. 2008 Magn-breytingar frá fyrra ári, %, spá 2009 Magn-breytingar frá fyrra ári, %, spá 2010 Magn-breytingar frá fyrra ári, %, spá 2011
Einkaneysla
793,8
-7,7
-24,7
-2,5
5,5
Samneysla
360,0
2,8
0,5
0,3
0,4
Fjármunamyndun
350,4
-21,8
-36,3
11,6
17,7
Þjóðarútgjöld alls
1507,6
-9,3
-21,3
0,7
6,4
Útflutningur vöru og þjónustu
655,1
7,1
0,5
1,6
3,0
Innflutningur vöru og þjónustu
697,6
-18,0
-27,9
2,4
6,1
Landsframleiðsla
0,3
-10,6
0,5
5,0
Viðskiptajöfnuður
-514,5
.
.
.
.
% af landsframleiðslu
.
-34,6
-2,0
0,2
-1,1


Einn stærsti óvissuþátturinn í spánni er gengi krónunnar. Gert er ráð fyrir að gengið haldist veikt að meðaltali árin 2009-2010 en styrkist nokkuð árið 2011. Samkeppnisstaða innlendra framleiðenda hefur styrkst mikið og mun haldast sterk meðan krónan er veik.

Vöruskiptahalli heyrir sögunni til og viðskiptahalli stefnir í sömu átt en hann var verulega neikvæður árið 2008 vegna falls bankanna. Fjárfesting og einkaneysla drógust stórlega saman árið 2008 og munu dragast mikið saman 2009 meðan hagkerfið fer í gegnum dýpstu lægðina.

Búist er við að viðsnúningur byrji á árinu 2010 og haldi áfram árið 2011, þegar fjárfesting, kaupmáttur og einkaneysla aukast á ný. Árin 2012 til 2014 er búist við hóflegum hagvexti, lítilli verðbólgu og mun minna atvinnuleysi. Tekjur ríkissjóðs hafa minnkað mikið á meðan útgjöldin hafa stóraukist. Það blasir því við að framundan eru erfið ár í ríkisrekstrinum. Tekjuhalli ríkisins var 1,2% af landsframleiðslu 2008 en verður 12,6% árið 2009. Ráðgert er að hallanum verði eytt á næstu árum og ríkissjóður verði með tekjuafgang 2013.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta