Hoppa yfir valmynd
14. maí 2009 Utanríkisráðuneytið

Tillögudrög

Hér fylgir texti þeirra tillögudraga sem kynnt voru á fundi forystumanna stjórnmálaflokkanna í gær og á fundum utanríkisráðherra með formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og fulltrúa þinghóps Borgara-hreyfingarinnar í dag.

Tillögudrög

Alþingi samþykkir að ríkistjórnin leggi inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.

Greinargerð

Tillaga um aðildarumsókn til ESB er lögð fram til þess að íslenska þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að Evrópusambandinu þegar hann liggur fyrir.

Umsókn að ESB jafngildir þannig ekki aðild enda er það íslensku þjóðarinnar að komast að endanlegri niður-stöðu hvað hana varðar. Samhliða verði lagt fram frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál sem ríkisstjórn eða Alþingi ákveði að leggja fyrir þjóðina. Tillaga um umsókn og frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur verða lögð fram samhliða á vorþingi.

Víðtækt samráð verður haft við hagsmunaaðila um samningsmarkmið fyrir viðræðurnar á ýmsum sviðum, s.s. sjávarútvegs, landbúnaðar- og byggðamála, á sviði almannaþjónustu, umhverfis- og jafnréttismála og gjald-miðilsmála og leitast við að ná sem breiðastri samstöðu um umræðugrundvöll viðræðnanna. Skoðað verður hvort unnt sé að ná fram samstarfi í gjaldmiðilsmálum samhliða viðræðum um hugsanlega aðild til að styðja við gengi krónunnar. Áhersla er lögð á opið og gagnsætt ferli og reglubundna upplýsingagjöf til almennings og hagsmunaaðila.

Fagleg viðræðunefnd við ESB verður skipuð af ríkisstjórn Íslands. Henni til fulltingis verður breiður samráðs-hópur fulltrúa hagsmunaaðila sem nefndin leitar ráðgjafar hjá, og upplýsir jafnóðum um framvindu viðræðna.   Ísland sem Evrópuþjóð vill leggja sitt af mörkum við uppbyggingu lýðræðislegrar Evrópu sem grundvallast á félagslegu réttlæti, jafnrétti og virðingu fyrir manngildi og umhverfi. Hlutverk Evrópu er að vera hornsteinn mann-réttinda í heiminum og ýta undir stöðuleika, sjálfbær þróun, réttlæti og velmegun um allan heim.

Stjórnvöld áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið.

Meðal grundvallarhagsmuna Íslands eru:

  • Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra
  • Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er.
  • Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis 
  • Að tryggja lýðræðislegan rétt til að stýra almannaþjónustu á félagslegum forsendum
  • Að standa vörð um réttindi launafólks og vinnurétt.

Alþingi meti hvort setja skuli sérstaka Evrópunefnd Alþingis með fulltrúum allra stjórnmálaflokka er fari með samskipti við viðræðunefnd vegna ESB, en viðhorf stjórnarflokkanna er að það sé heppilegt.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta