Srí Lanka: Vernda verður óbreytta borgara - Ísland veitir 5 milljón kr. neyðaraðstoð
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, skorar á stjórnvöld á Srí Lanka og baráttusamtök Tamíl Tígra að vernda óbreytta borgara í átökum stjórnarhermanna og Tamíl Tígra.
Síðustu daga hafa tugir þúsunda borgara flúið átakasvæði í norðurhluta landsins. Enn eru, að því er talið er, um 50 þúsund óbreyttir borgarar á yfirráðasvæði Tamíl Tígra. Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðlegi Rauði krossinn staðfesta mikið mannfall meðal óbreyttra borgara og segja ástandið hörmulegt.
Utanríkisráðherra segir það með öllu óásættanlegt að óbreyttir borgarar séu gerðir að peðum í átökum stríðandi fylkinga með tilheyrandi mannfalli og hörmungum. Stjórnvöldum á Sri Lanka og baráttusamtökum Tamíl Tígra ber skylda til að fara að alþjóðlegum mannúðarlögum. Báðum aðilum ber að tryggja öryggi almennra borgara og aðgengi mannúðar- og hjálparsamtaka til að koma matvælum og hjálpargögnum til þeirra sem eiga um sárt að binda.
Ófriður hefur ríkt á Sri Lanka um áratugaskeið. Allar Norðurlandaþjóðirnar í samstarfi við báða deiluaðila stóðu að Norrænu vopnahléseftirlitssveitinni, SLMM (Sri Lanka Monitoring Mission), sem starfaði frá 2002 til janúar 2008 á grundvelli friðarsamkomulags milli deiluaðilanna. Stjórnvöld á Sri Lanka sögðu upp friðarsamningnum einhliða og juku hernaðaríhlutun sína á Vanni-svæðinu í norðurhluta landsins, sem hefur verið áhrifasvæði Tamil Tígra. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur starfað að fiskimálum á Srí Lanka síðan 2005, en verkefnum stofnunarinnar lýkur þar á árinu, samkvæmt fyrri ákvörðun, og verði sendiráði Íslands jafnframt lokað.
Vegna ástandsins í landinu hefur utanríkisráðuneytið veitt 5 milljónum króna í neyðaraðstoð vegna flóttafólks á svæðinu. Aðstoðin er veitt með milligöngu Rauða kross Íslands.