Skipað í nefnd um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálaflokkana.
Forsætisráðherra hefur skipað nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða lög um fjármál stjórnmálaflokkana. Nefndin er skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi auk fulltrúa Frjálslynda flokksins og einum fulltrúa sem forsætisráðherra skipar án tilnefningar.
Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu, ber forsætisráðherra eigi síðar en 30. júní 2010 að skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að endurskoða lögin og framkvæmd þeirra. Er það mat forsætisráðherra að rétt sé að flýta þessari endurskoðun í ljósi þeirrar umræðu sem skapast hefur að undanförnu um fjármál stjórnmálaflokka og vegna ábendinga nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn spillingu (GRECO). Í skýrslu nefndarinnar frá 4. apríl 2008 kemur fram að íslenska ríkinu beri að upplýsa GRECO ekki síðar en 31. október um viðbrögð við ábendingum nefndarinnar.
Nefndina skipa:
Ágúst Geir Ágústsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, formaður, skipaður án tilnefningar.
Margrét S. Björnsdóttir, forstöðumaður stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands, tilnefnd af Samfylkingunni.
Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, tilnefnd af Sjálfstæðisflokknum.
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, tilnefnd af Vinstri hreyfingunni - grænu framboði.
Sigfús Ingi Sigfússon, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, tilnefndur af Framsóknarflokknum.
Jóhann Kristjánsson, framkvæmdastjóri þingflokks Borgarahreyfingarinnar, tilnefndur af Borgarahreyfingunni.
Magnús Reynir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, tilnefndur af Frjálslynda flokknum.
Í ljósi jákvæðra viðbragða forystumanna stjórnmálaflokkanna hefur nefndinni jafnframt verið falið að fylgja eftir og leiða til lykta hugmyndir forsætisráðherra um að Ríkisendurskoðun, í kjölfar lagabreytingar eftir atvikum, verði falið að gera úttekt á fjárreiðum þeirra stjórnmálaflokka sem átt hafa fulltrúa á Alþingi, vegna áranna 1999 til 2006, eða fram að gildistöku laga nr. 162/2006 og að Ríkisendurskoðun skuli sem fyrst skila samræmdum niðurstöðum um heildarfjárreiður flokkanna, bæði landsflokkanna, kjördæmisráðanna, einstakra félaga flokka og eftir atvikum, frambjóðenda þeirra vegna forvala og/eða prófkjara á umræddu tímabili. Er óskað eftir því að afstaða flokkanna til slíkrar úttektar liggi fyrir eigi síðar en 15. júní þannig að hægt sé að hefja undirbúning hennar sem fyrst.
Að öðru leyti er nefndinni falið að skila tillögum sínum til forsætisráðherra fyrir 1. október.
Reykjavík 19. maí 2009